Ljósmyndari Lára Stefánsdóttir
Ljósmyndari Lára Stefánsdóttir
Fífilbrekkuhátíð 2007 var haldin á Hrauni í Öxnadal laugardaginn 16. júní s.l. að viðstöddu fjölmenni. Er talið að um 300 manns hafi verið að Hrauni þennan dag.  Á hátíðinni var fólkvangurinn í landi Hrauns, Jónasarvangur, vígður og fræðimannsíbúðin í nýuppgerðu íbúðarhúsinu frá 1933 opnuð.

Tryggvi Gíslason, formaður stjórnar Menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal, setti hátíðina og minntist Jónasar Hallgrímssonar sem fyrsta nútímaskálds Íslendinga, fyrsta menntaða náttúrufræðings þjóðarinnar og eins helsta stjórnmálamanns á fyrra hluta 19. aldar.  Guðmundur Sigvaldason, sveitarstjóri Hörgárbyggðar, flutti ávarp, og fagnaði þessu framtaki menningarfélagsins og séra Hannes Blandon, prófastur Eyjafjarðarprófastsdæmis, blessaði fólkvanginn og fræðasetrið og það starf sem þar yrði unnið. Gróðursettur var reyniviður í blómagarðinum sunnan við húsið, gjöf frá Skógrækt ríkisins. Ösp Kristjánsdóttir frá Tjörn söng nokkur lög Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Jónasar Hallgrímssonar við undirleik Unnar Birnu Björnsdóttur og Þórarins Hjartarsonar og Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur ávarpaði samkomuna, færði gjafir og árnaði heilla.

fifilbr2_400

Að lokinni setningarathöfninni var gestum boðið upp á kaffi og kleinur í eldhúsinu á Hrauni og síðan var gengið um fólkvanginn undir leiðsögn Bjarna Guðleifssonar, Þóris Haraldssonar og Tryggva Gíslasonar.  Tóku nær eitt hundrað manns þátt í göngunum. Menningarfélagið Hraun í Öxnadal hefur gefið út kort með lýsingu á 14 gönguleiðum um Jónasarvang, s.s. suður í Hraunin, upp að Hraunsvatni, um Draugadal í Einbúaskál, á Einbúa og Drangafjall og á Hraundranga. Kortin er hægt að fá á skrifstofu Hörgárbyggðar og Íþróttamiðstöðinni á Þelamörk.

Mikið verk hefur verið unnið á Hrauni frá árinu 2003, að Menningarfélagið Hraun í Öxnadal keypti jörðina.  Endurbætur hafa verð gerðar á heimalandinu og heimreiðinni, ónýt útihús fjarlægð og íbúðarhúsið gert upp frá grunni og hafa margir iðnaðarmenn komið að verkinu. Stefán Traustason trésmíðameistari á Akureyri hefur stjórnað framkvæmdum og unnið alla trésmíðavinnu ásamt föður sínum, Trausta Adamssyni trésmíðameistara.  Í setningarávarpi sagði Tryggvi Gíslason að “menningarverkefnið Hraun í Öxnadal” hefði aldregi orðið að veruleika nema af því að til kom stuðningur frá sveitarfélaginu Hörgárbyggð, menningarsjóði KEA, en síðast ekki síst frá Sparisjóði Norðlendinga og Menningarsjóði sambands íslenskra sparisjóða. Þyngst hefði vegið stuðningur Sparisjóðs Norðlendinga undir forystu stjórnarformannsins, Jóns Kr. Sólness lögmanns.

fifilbr1_400
  
MINNINGARSTOFA

Minningarstofa um Jónas Hallgrímsson verður opnuð á Hrauni 16. nóvember 2007.  Afmælisnefnd menntamálaráðherra hefur veitt styrk til verksins en Minjasafnið á Akureyri hefur umsjón með uppsetningu undir stjórn Guðrúnar Maríu Kristinsdóttur fornleifafræðings, forstöðumanns safnsins, en þeir Þórarinn Blöndal og Þórarinn Hjartarson annast gerð sýningarinnar. Áhersla er lögð á að Hraun í Öxnadal er fæðingarstaður Jónasar Hallgrímssonar og við þann stað er nafn hans bundið.  Unnið verður með umhverfi og náttúru staðarins sem verður með beinum hætti hluti af sýningunni.  Brugðið er upp “lífsdagbók” Jónasar í leiftrum og henni skipt upp æskuár, árin á Bessastöðum, Reykjavíkurtímann, Kaupmannahafnarárin og ferðalög hans um Ísland.  Gerð verður grein fyrir ljóðum Jónasar Hallgrímssonar og Íslandslýsingunni, sem hann vann lengi að, gerð rækileg skil.  M.a. verða birt kort af rannsóknarferðum hans um landið, m.a. örlagaríka ferð yfir Nýjabæjarfjall sumarið 1839, yfirlit yfir veðurathugunarstöðvar sem hann átti frumkvæði að og gerð grein fyrir ritum hans um náttúrufræði. 

fifilbr3_400
  
ÆVISAGA JÓNASAR HALLGRÍMSSON


Ný ævisaga Jónasar Hallgrímssonar kemur út á afmælisdaginn 16. nóvember 2007. Þar verður dregin upp mynd af einstaklingi sem lifði við sérstakar aðstæður, er gátu af sér sérstæð listaverk, og bent á þætti í lífi Jónasar sem urðu honum að ljóðum. Inn í ævisöguna verður fléttað ljóðum, lausavísum og kvæðum sem tengjast sérstaklega lífshlaupi hans og birtar ljósmyndir, teikningar og málverk er tengjast ævi hans og verkum.  Böðvar Guðmundsson, skáld frá Kirkjubóli í Hvítársíðu, ritar ævisöguna sem afhent verður öllum nemendum í 10. bekk grunnskóla. Sparisjóður Norðlendinga stendur að útgáfunni ásamt Hrauni í Öxnadal.

ÁNINGARSTAÐUR VIÐ HRAUN


Síðsumars verður tekinn í notkun glæsilegur áningarstaður við þjóðveginn gegnt Hrauni með minningarsteini um Jónas, grjóthleðslum, trjám og runnum og hringsjá, bekkjum og borðum til þess að snæða við, auk tíu bílastæða, þar af fimm stæðum fyrir húsbíla. Vegagerðin sér um og kostar framkvæmdir og er það framlag hennar á afmælisári.

JÓNASARFYRIRLESTRAR 2007

Á afmælisdaginn 16. nóvember 2007 verða á Akureyri haldnir fyrirlestrar, hinn fyrsti um manninn Jónas Hallgrímsson, annar um landið, skáldskapinn og konuna í ljóðum hans og hinn þriðji um aldarfar og menningu á Íslandi og í Danmörku á 19. öld.