Minjasafnið á Akureyri og Áhugaljósmyndaklúbburinn Álkan undirrituðu á föstudaginn samstarfssamning um heimildaljósmyndun í verslunum á Akureyri. Verkefnið er afsprengi vinsælla sýninga Minjasafnsins Hér stóð búð og Hér var verzlun, þar sem sýndar voru ljósmyndir úr verslunarsögu Akureyrar fram að síðustu aldamótum.
„Sýningarnar voru á engan hátt tæmandi því það vantaði auðvitað myndir af ýmsum verslunum. Við unnum sýningarnar að mestu úr ljósmyndum frá dagblaðinu Degi, sem safnið varðveitir. Það vakti okkur til umhugsunar um að það yrði erfitt, jafnvel ómögulegt, að gera sýningar sem þessar um samtímann því nú eru aðeins starfandi þrír blaðaljósmyndarar á Íslandi.“ Blaðaljósmyndarar tóku ekki aðeins myndir af fréttaefni hvers tíma heldur mynduðu fjölbreytt mannlíf hversdagsins til að fylla upp í blöðin á hverjum degi. Í dag eru þetta ekki skreytingar eða uppfylling heldur mikilvægar heimildir um fortíðina, segir Haraldur Þór safnstjóri.
Af þessum ástæðum hafði safnið samband við Álku um mögulegt samstarf sem nú er að verða að veruleika. Hugmyndin var að fá fleiri en einn ljósmyndara til að taka myndir þannig að sjónarhornið og myndirnar verði sem fjölbreyttastar. Verslanirnar verða myndaðar að utan sem innan þannig að þær lýsi því hvernig þær eru/voru. Þær munu vonandi sýna starfsfólk við vinnu, viðskiptavini og fjölbreytt vöruúrval.
Jafnframt hvetjum við verslunareigendur sem söknuðu ljósmynda á fyrri ljósmyndasýningum til að senda Minjasafninu ljósmyndir af sínum verslunum ef þær eru til.
Verkefnið er hugsað sem fyrsta skref í samskonar ljósmyndun á öðrum hliðum atvinnu- og mannlífsins. Við vonum að viðskiptavinir og verslunarfólk taki ljósmyndurum frá Álku vel. „Hver veit nema að þú verðir á sýningu í framtíðinni“ segir Haraldur.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30