Fyrir hesta hafði leggi,
hratt þeim reið um slétta grund
Hlóð úr grjóti húsa veggi,
hornum lék mér að um stund.
Kýr og byssur kjálkar voru
kuðung nýttum fyrir hund.
Gerðum brú á giljarskoru,
gjarnan höfðum bændafund.
Fram að kvöldmat einatt undum
úti þessa leiki við.
Að leika sér á grónum grundum
gleður jafnan ungviðið.
Hallgrímur Gíslason.
Hér að ofan er stutt minning um búleiki, en það hefur lengi tíðkast að börn leiki sér að leggjum, kjálkum og öðru tilfallandi. Hugmyndirnar voru oft fengnar frá eldri krökkum en oft þurfti hver og einn að virkja sitt eigið hugmyndaflug, því ekki var alltaf auðvelt að ná í það sem maður vildi helst hafa.
Byggð voru hús fyrir dýrin. Steinum var raðað upp í ferhyrning og svo voru búnir til garðar eða jötur fyrir þau að éta úr og til að aðskilja krærnar. Oft gekk mikið á, þessi steinn passar betur hérna, þú átt ekki að gera þetta svona, kindurnar sleppa út í gegnum þessa rifu og svo framvegis. Það þurfti líka að byggja rétt með almenningi og nógu mörgum dilkum fyrir hvert og eitt heimili. Kofar voru byggðir úr torfi og grjóti og gjarnan sett mold á milli til að þétta þá. Spýtur eða trjágreinar voru notaðar undir torfið á þakinu. Girðingar þurfti líka að búa til, annaðhvort var raðað saman steinum eða smástaurar voru reknir niður og snæri haft á milli þeirra.
Leggir voru gjarnan notaðir sem hestar. Ef stórgripaleggir fengust voru sauða-leggir stundum hafðir fyrir folöld, nautgripaleggir sem dráttarhestar, en hrossleggir voru reiðhestar, enda lengri, grennri og rennilegri. Hestarnir voru beislaðir þannig að band var bundið um hnútuna á sérstakan hátt og síðan þeysti maður með snærið á milli fótanna og hestinn í eftirdragi. Stundum voru leggir settir á milli hnjánna og reynt að hlaupa þannig, þá var keppt um hver kæmist lengst án þess að missa þá.
Horn voru höfð fyrir kindur. Í 300 kinda stórbúi við Eyjafjörð var venjan að geyma horn frá haustslátrun yfir veturinn og láta slá í þau. Um vorið var hornunum slegið við stein til að losa slógið úr þeim og voru ærnar þá að bera. Fyrir kom að erfiðlega gekk að slá úr hornunum og voru þau þá lögð í bleyti í læk yfir nótt og slegið úr þeim daginn eftir og gekk sauðburðurinn þá vel. Sums staðar voru lambhrútahorn höfð fyrir ær, ærhorn fyrir gamalær og gimbrahorn fyrir lömb. Stór hrútshorn voru hrútar.
Stundum voru kindurnar teknar og þeim þeytt út um víðan völl, en þá þurfti líka að smala þeim saman aftur. Þá voru hestarnir beislaðir og haldið af stað. Reynt var að finna fyrst ærnar sem voru lengst frá réttinni eða húsunum og þau færð nær. Var þeim þá hent stuttan spöl í einu í átt að húsunum og leitað að næstu kindum. Kindurnar smáfærðust í átt að húsunum og var reynt að henda þeim þannig að þær mynduðu hópa, en svo var alltaf ein og ein kind sem laumaðist út úr hópnum og þá þurfti að komast fyrir hana og koma henni saman við hópinn. Aldrei var hætt fyrr en allar kindurnar voru komnar í hús, þannig að það var eins gott að hver bóndi vissi hvað hann átti margar kindur.
Bobbar og aðrir kuðungar eða völur voru notaðar sem hundar.
Kjálkar voru kýr. Stundum voru tennurnar teknar út en sú aftasta skilin eftir sem júgur. Kjálkar voru líka handhægir sem skammbyssur og sem handfang á veiðarfæri, en þá var þráður festur á enda kjálkans, títuprjónn var beygður og ánamaðkur þræddur upp á hann, síðan var dorgað og reynt að veiða síli. Bestu prjónarnir fengust úr skotthúfum, því þeir voru með stærri haus og það var auðveldara að beygja þá en venjulega títuprjóna. Stórgripakjálkar voru nuddaðir upp úr úr mold eða leir, þannig að kýrnar urðu skjöldóttar og bröndóttar. Þegar ullin var lituð var tækifærið notað til að vefja band um leggi og kjálka og dýfa þeim í litinn. Búsmalinn varð þá mjög skrautlegur á litinn.
Úrteknar tennur úr kjálkum og fiskbein voru höfð fyrir hænur. Hænurnar voru stundum hafðar í moldarflagi og gefinn arfi að éta. Oft tálguðu menn ýsubein og bjuggu þannig til fugla, sem voru kærkomin viðbót í búskapinn.
Hreiður voru búin til úr sinu og í þau settir hvítir steinar úr fjörunni eða eggi var nappað úr kríuhreiðri. Þá var eins gott að útbúa fuglahræður, til að lenda síður í atviki eins og Stoðfélagar fyrir tveimur árum, þegar við útbjuggum hænuhreiður og höfðum í því 2 harðsoðin egg, því þau hurfu fljótt. Það sást til ræningjans, en það var krummi sem hafði verið að vappa í kringum hreiðrið. Hann tók loks eggin og flaug með þau í burtu, annað í einu.
Þar sem vatn eða lækur var nálægt var sjálfsagt að smíða sér bát úr spýtukubbum til að sigla á eða bregða sér á milli bæja. Ýmist var þeim fleytt eða bundið í þá band og þeir dregnir. Bílar voru smíðaðir á svipaðan máta og dró maður þá á eftir sér. Oft þurfti að moka og laga vegi og byggja brýr yfir læki og gilskorur til að komast á áfangastað á bílunum. Einnig voru grafnir skurðir og vatni veitt eftir þeim.
Kúskeljar voru nýttar í suma búleiki sem kýr, en einnig voru þær notaðar sem drykkjarílát fyrir búpeninginn. Gimburskeljar voru kindur og var aðalleikurinn í því fólginn að raða þeim upp við jötuna, sem heyi var dreift í. Litlar bláskeljar voru lömd. Hörpudiskar voru oft fáséðir og því mikil gersemi. Voru þeirr nýttir sem gluggar á kofana eða mót fyrir leirjarðveg og mold.
Sumir heyjuðu fyrir búfénaðinn, þá var gras klippt með sauðklippum og heyið sett upp í stæði eða heyhlöðu sem byggð hafði verið úr torfi, grjóti og spýtum.
Margir muna eftir drullumalli. Þá var mold bleytt, hnoðuð og hrærð og mótaðar kökur, tertur og brauð. Stundum skrifuðu börnin nafn sitt í kökuna með fingri áður en hún þornaði, bjuggu til falleg mynstur með skel eða steini. Einnig var skreytt með mislitum fjörusteinum, skeljum, blómum, fræjum, lyngi eða þá peningablómum sem einnig voru notuð í búðarleiki. Best var að nota leirkennda mold, þá var mun betra að móta kökurnar og rauðamýri gaf fallegan lit. Úr lambagrasi var búinn til drykkur sem nefndist Lambagrasate og smakkaðist vel. Dósir, pottar, krúsir og ýmis heimlisáhöld voru fengin að láni í búin.
Hér að ofan eru fáein minningabrot einstaklinga, sem léku sér að búleikjum í æsku. Á sumardaginn fyrsta er búsmali Stoðvina Minjasafnsins færður út á flöt. Þar gefst ungum sem öldnum tækifæri til að bregða sér á leik bernskunnar, virkja sköpunargleðina og skiptast á skoðunum.
Heimildamenn:
Björg Guðjónsdóttir,
Hallgrímur Gíslason,
Þór Sigurðsson,
Örn Heimir Björnsson.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30