m22772_400
smelltu hér til að sjá ljósmyndir

Það eru fáir dagar sem setja jafn mikinn svip á bæjarlífið á Akureyri og öskudagur.  Þannig hefur það líka lengi verið. Börnin vakna snemma klæðast skrautlegum búningum og mynda hvert öskudagsliðið af öðru. Liðin arka um bæinn og heimsækja fyrirtæki, verslanir og stofnanir þar sem þau bjóða fram söngva í skiptum fyrir góðgæti. Flestir leggja metnað sinn í lagaval og fagran söng og af þeim sökum hafa farið fram margar fjörlegar æfingar dagana á undan. Uppskera þeirra verður einnig mjög ríkuleg þó deila megi um næringarfræðilegt gildi hennar.  Eitt er víst að í febrúar eru nammidagar einum fleiri en venjulega.

Orð eru til alls fyrst

Öskudagur er ansi forvitnilegur siður sem á sér rætur í kaþólskum venjum. Á miðvikudegi 7. vikum fyrir páska hófst 40 daga fasta (lönguföstu) þar sem ekki átti að neyta kjöts og jafnvel annara fæðutegunda. Þetta var gert til að undirbúa sálina fyrir páskana með innri hreinsun og helgun en ekki síst var þetta tími iðrunar. Það skal því ekki undrast að fólk hafi gert sér glaðan dag áður en langafasta hófst.

Allt frá því á 7. öld hefur öskudagur markað upphaf föstunnar. Ösku var þá dreift yfir iðrandi söfnuðarmeðlimi sem máttu ekki koma til kirkju fyrr en á skírdegi en á 10. öld var askan sérstaklega vígð í þessum tilgangi. Öld síðar voru leifar af vígðum pálmum frá pálmasunnudegi síðasta árs brenndar og vígðar áður en presturinn gerði krossmark á enni safnaðarmeðlima um leið og hann mælti: ”Mundu að þú ert aska (duft) og að ösku (dufti) skaltu aftur verða.” Á kirkjumáli var dagurinn því nefndur ”fjórði dagur viku helgaður ösku” sem almenningur nefndi öskudag.

Öskupoki eða steinvölupoki

Ætla verður að öskudagur hafi einnig verið dagur iðrunar á Íslandi fram að siðbreytingu þó ritheimildir geti ekki um öskudag fyrr en á 14. öld. Í ritgerð frá 1593 segir að á öskudag hafi prestur stökkt ösku á safnaðarmeðlimi úr línpoka eða skjóðu, en askan var pálmi sem brenndur hafði verið á altarissteini ári áður. Með siðbreytingunni hverfur þetta hlutverk iðrunar eða aflausnar en ærsl og kátína taka við þar sem konur hengdu í háðungarskyni öskupoka á karla sem svöruðu með pokum með smásteinum. Hvaða merkingu þetta hafði annað en vera aðhlátursefni er óvíst. Þó er hugsanlegt að pokarnir og innihald þeirra hafi falið í sér syndir eða mannlegar yfirsjónir sem ekki þótti tilhæfis að bera á torg.

Það er mat Árna Björnssonar, þjóðháttafræðings, að öskupoka siðurinn sé alíslenskur. Elsta örugga heimild um þennan sið er orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá 1734 en víst er að siðurinn var vel þekktur á 19. öld.

Köttur, tunna og hrafn

Að klæða sig upp í grímubúning og verða sér út um góðgæti virðist vera þýsk-danskur siður sem festi sig í sessi á Íslandi seint á 19. öld þegar þéttbýli fer að myndast á Íslandi.

Það er ekki fyrr en á 19. öld að Íslendingar fara að slá köttinn úr tunninni en hingað barst frá Danmörku en þangað barst hann frá Hollandi á 16. öld. Þessir siðir voru upphaflega bundnir við bolludag en hafa færst yfir á öskudag.

Grímuklæddir drengjaflokkar marseruðu milli húsa og sungu og fengu í staðinn peninga eða aðrar gjafir. Víðast hvar viðast þessir siðir leggjast af um eða eftir aldamótin 1900 en siðurinn lifði áfram góðu lífi á Akureyri. Ástæða fyrir þessu er óljós en ef til vill hefur vaxandi þjóðerniskennd spilað inní en tengsl Akureyringa við Danmörku haldið lífinu í siðnum hér niðrðra þar til hann fór aftur að breiðast út um landið.

Marseringar og kattarslagur er siður frá síðari hluta 19. aldar þótt hann hafi tíðkast víða erlendis. Hér voru forsendur aðrar, eiginlegt þéttbýli ekki til fyrr en á 19. öld og náttúrufar ekki hentugt til hátíðarhalda snemma árs.

Viltu vita meira? Kíktu á þessar heimildir:

Árni Björnsson, Hræranlegar hátíðir.

Árni Björnsson, Saga daganna.

http://www.lexis.hi.is/joord4.html

 

Hvernig var þín upplifun af öskudegi? Sendu okkur tölvupóst til minjasafnid@minjasafnid.is eða í sendibréfi til okkar í Aðalstræti 58.