Í sýningu safnsins er prédikunarstóll úr Kaupangskirkju sem er í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Hann er frá árinu 1765. Athygli safngesta beinist að litum hans, formi, spjöldum, listum, stöfum, blómum og hjörtum. Prédikunarstóllinn gerði Jón Hallgrímsson frá Naustum, annar þeirra Naustafeðga sem voru mikilvirkir listamenn á 18. öld. Til eru margir myndskreyttir kirkjugripir eftir þá feðga, bæði í kirkjum og söfnum og það víðar en á Norðurlandi.
Hallgrímur Jónsson var fæddur á Naustum árið 1717 og lést árið 1785. Hann gekk í skóla á Hólum en lærði ekki trésmíðar svo vitað sé, þótt æviverk hans lægju mest í þeim.
Einn sona hans var Jón, fæddur 1741, einnig á Naustum. Hann sigldi til Danmerkur og lærði bæði trésmíðar og málun. Sjá má handaverk Jóns til dæmis í Hóladómkirkju, myndir sem hann málaði af höfuðdyggðunum tólf í kvennalíki skömmu eftir 1760.
Sagt hefur verið að mótmælendur séu sálir með eyru. Með því er vísað til mikilvægis hins talaða orðs í lútherskri guðsþjónustu. Við siðaskiptin um miðja 16. öldina breyttist margt í stjórnarfari og helgihaldi kirkjunnar. Breytingin náði til kirkjubygginga og innréttingu kirkna. Smám saman þróuðust kirkjusiðir í átt til hins einfalda. Ekki var lengur þörf fyrir líkneski og helgiskrín en þrennt þurfti, háaltari, skírnarfont og prédikunarstól.
Prédikunarstóllinn fékk veglegan sess í kirkjunni og notkun fastra bekkja fyrir kirkjugesti jókst.
Bekkirnir máttu ekki vera það þægilegir að höfgi rynni á söfnuðinn undir prédikuninni.
Prédikunarstólar í íslenskum kirkjum voru settir þar sem sólarbirtu naut helst við og gjarna var lítill skjár á þekjunni uppi yfir til að auðvelda lestur orðsins.
Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavörður taldi árið 1912 að predikunarstólinn væri í upprunalegri gerð að öllu leyti, með gömlu verki, listum og rósum á smáspjöldum. Á honum eru stafirnir G.G.S. og Anno 1765. Stóllinn hefur fimm hliðar og fjórar raðir af spjöldum á hæðina. Um spjöldin eru útsagaðir skrautlistar, sumir eins og hvolfþök sem súlur halda uppi. Útsöguð hjörtu setja mikinn svip á stólinn og gera hann sérstakan.
Á spjöldin eru máluð blóm af nokkrum gerðum. Þekkja má fjólu, og blóm sem líkist holtasóley. Auk þess rósir og túlípana, og loks blóm sem hafa lögun líkt og krossfiskur.
Rósir og túlípana hefur smiðurinn að vísu átt að hafa séð í Kaupmannahöfn en íslensku jurtirnar eru engu að síður mun betur gerðar.
Fangamarkið G.G.S. stendur fyrir þann sem lét smíða stólinn fyrir kirkjuna. Þótt prédikunarstólar væru hluti af föstum búnaði í kirkjum, var algengt að þeir væru gefnir þangað af einstaklingum, prestum eða kaupmönnum.
Í bók sinni Táknmál trúarinnar útskýrir Karl Sigurbjörnsson biskup kristileg tákn og liti. Kristin trú býr yfir sérstöku myndmáli sem að vísu hefur verið mun fjölbreyttara áður fyrr. Táknmálið er málið án orða, það sem er skynjað beint ef svo má segja, með hjartanu eða andanum, og krefst ekki lestrarkunnáttu. Táknin standa fyrir heilan veruleika sem tæki langan tíma að útskýra með orðum.
Rós getur táknað margt, til dæmis er talað um Maríu guðsmóður sem rósina án þyrna. Kirkjan í Kaupangri var helguð Maríu mey og Ólafi helga á kaþólskri tíð og getur verið að það sé tilefni rósanna á stólnum. En rósir geta líka staðið fyrir sár Krists, og loks táknar rós þagmælsku og trúnað.
Fjóla táknar auðmýkt og litur hennar er tákn iðrunarinnar. Hjörtu tákna einfaldlega kærleika Krists. Hjörtu hafa verið í tísku bæði fyrr og síðar, stundum hjúpuð rómantík eða dulúð. Á allra síðustu árum standa hjartatákn fyrir Valentínusardaginn og kærleikinn í því sambandi.
Jurtir og blóm hafa yfir höfuð margvíslega merkingu á kristnu táknmáli og grænn gróður er samofinn helgihaldi langt aftur fyrir kristni. Loks standa litirnir á prédikunarstólnum, grænn og rauður, fyrir von og eld, blóð og kærleika.
Prédikunarstóllinn frá Kaupangri var keyptur til Þjóðminjasafnsins árið 1923, en árið áður var byggð ný kirkja í Kaupangri og hefur gamli stóllinn þá ekki þótt passa lengur.
Byggt á sýningarskrá Kirkjulistaviku 1993 og bókinni Táknmál trúarinnar. GMK 2002.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30