Fundargerð.
Stjórn Minjasafnsins á Akureyri kom saman til fundar í Aðalstræti 58 miðvikudaginn 6. september 2006.
Formaður setti fund og hóf dagskrá.
- Safnstjóri lagði fram yfirlit yfir stöðu bókhalds 31. ágúst miðað við fjárhagsáætlun.
Rekstur, sumarstarf og viðhaldsliðir eru í samræmi við áætlun. Staða launaliðar lá ekki fyrir vegna afturvirkra starfsmatshækkana sem eru að koma til framkvæmda þessa dagana.
Upp á áætlaðar tekjur vantar nokkuð, aðallega liðinn seld sérfræðiþjónusta. Þar vantar tekjur vegna þjónustu við Iðnaðarsafnið, vegna umsjónar með Gásaverkefninu, og vegna húsakönnunar á Oddeyri. Þær tekjur koma til skila síðar á árinu.
Umræða varð um hvernig safnið gæti aukið tekjur sínar. Komu fram hugmyndir um markaðssetningu í samvinnu við aðrar stofnanir og fyrirtæki, og erlendis í tengslum við beint flug til útlanda.
Einnig var rædd staða safnanna í Innbænum og möguleikar á að auka umferð ferðamanna um þennan bæjarhluta. Fundarmenn voru sammála um að í bæjarhlutann vantaði kaffihús og meiri aðstöðu fyrir ferðamenn en nú er.
- Safnstjóri kynnti gróf drög að rekstraráætlun fyrir Minjasafnið 2007. Framkvæmdastjóri Héraðsnefndar Eyjafjarðar hefur áætlað launakostnað og lá sú tala fyrir til bráðabirgða. Drögin verða unnin frekar og lögð fram á næsta fundi.
- Rædd var þörf fyrir framkvæmdir árið 2007. Eftir er frágangur á handriðum við nýuppsettar lyftur innan- og utandyra. Þá þarf að mála að utan húsin á Naustum, og Minjasafnskirkjuna að innan.
Rætt var um húsin tvö í Hrísey, Syðstabæjarhúsið og Holt, og að hvaða leyti starfsemin í þeim væri á vegum Minjasafnsins.
- Stjórnin þarf að leggja fram fjögurra ára áætlun í tengslum við fjárhagsáætlunargerð fyrir 2007. Rædd voru ýmis mál í því sambandi, svo sem framtíðaruppbygging safnsins í Aðalstræti og á Naustum, og endurnýjun grunnsýninga. Á næsta fundi eiga að liggja fyrir tölur um áætlaðan kostnað nokkura brýnna verkefna.
- Safnstjóri lagði fram yfirlit yfir gestatölur í Minjasafninu og Laufási með samanburði við árið 2005.
Heildarfjöldinn er 28.253 það sem af er ári, þar af 17.053 í Laufási. Mest aukning í Minjasafninu er vegna viðburða, og þar munar mikið um miðaldadagana á Gásum. Næstmest aukning er á komum skólabarna og annarra barna í safnið, en aðsókn íslendinga og útlendinga að sýningum safnsins er svipuð og árið áður.
- Önnur mál.
Formaður stjórnar lagði fram til kynningar bréf frá Hrauni í Öxnadal ehf, dagsett 3. september 2006 og undirritað af Tryggva Gíslasyni. Erindið varðar uppsetningu og rekstur á minningarstofu um Jónas Hallgrímsson, sem opna á í maí 2007 á Hrauni.
Stjórnin er reiðubúin að ræða við forsvarsmenn Hrauns ehf um málið.
Næsti fundur var ákveðinn miðvikudaginn 13. sept. kl. 18 í Aðalstræti 58.
Fleira ekki gert, fundi slitið.
Mættir voru:
Kristján Ólafsson, Ragnheiður Jakobsdóttir og Agnes Arnardóttir í fjarveru Guðrúnar Kristjánsdóttur. Margrét Jóhannsdóttir boðaði forföll, og varamaður hennar Dóróthea Jónsdóttir einnig.