Í þessu húsi, Aðalstræti 6 fóru fram sögulegar kosningar árið 1863. Ekki vegna kosningaúrslitanna heldur því hverjir kusu.
Þegar Akureyri fékk kaupstaðarréttindi í annað skiptið 1862 var efnt til bæjarstjórnakosninga sem fóru fram 31. mars 1863. Á kjörskrá voru 21, þar af tvær konur! Þetta stakk mjög í stúf við ríkjandi viðhorf og lög enda fengu konur ekki formlega að taka þátt í opinberum kosningum fyrr en 1882 til sveitastjórna en fyrr en 1915 til Alþingis að uppfylltum ströngum skilyrðum. Konurnar á kjörskrá 1863 voru Vilhelmína Lever og Kristbjörg Þórðardóttir. Kristbjörg nýtti ekki rétt sinn en Vilhelmína gerði það hins vegar og kaus því fyrst kvenna á Íslandi.
Vilhelmína Lever var fædd árið 1802. Hún var dóttir Þuríðar Sigfúsdóttur og Hans Lever kaupmanns á Akureyri, sem fyrstur manna reyndi fyrir sér í kartöflurækt hér í bæ og kynnti hana fyrir Akureyringum. Vilhelmína kom víða við í sögu bæjarins og setti svip sinn á hann. Þannig skildi hún við mann sinn og ól barn sitt upp ein. Hún rak um nokkurt skeið verslun og veitingasölu m.a. í Nonnahúsi. Á kjörskránni frá 1863 er hún titluð „Madame Vilhelmína“ og í sóknarmannatölum var hún skráð ýmsum virðulegum viðurnefnum eftir því hvað hún aðhafðist hverju sinni, til dæmis „verslunarborgarinna“ (1856) og „gestgjafakona“ (1862). Ýmislegt fleira gerði Vilhelmína á lífsleiðinni þó svo að það verði ekki nefnt hér, en óhætt er að fullyrða að hún var ekki dæmigerð kona á 19. öld. Hún fór ótroðnar slóðir og réðst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur.
Nokkuð hefur verið fjallað um þessa sögulegu kosningaþáttöku Vilhelmínu en sjaldan minnst á að hún var ekki eina konan á þessari kjörskrá. Áðurnefnd Kristbjörg var sömuleiðis merkileg kona, vel efnuð ekkja, fædd á Sörlastöðum í Fnjóskadal árið 1818. Hún fluttist til Akureyrar nokkrum árum áður og m. a. hafði unnið fyrir sér með saumum og hannyrðum.
Sé litið til löggjafar og ríkjandi viðhorfs til kvenna, sem í þá daga voru í raun útilokaðar frá félagslegri og pólitískri þátttöku í samfélaginu, er ekki úr vegi að spyrja sig hvers vegna Vilhelmína og Kristbjörg voru á kjörskrá? Karlmenn þurftu að uppfylla ákveðin eignar- og aldursskilyrði til þess að mega kjósa. Staða karlmanna í þjóðfélaginu skar úr um hvort þeir gætu talist nægilega verðugir til þess fá að kjósa eður ei. Vilhelmína og Kristbjörg uppfylltu öll þeirra skilyrði, nema það var þetta með kynið. Í kosningalögunum frá Danmörku, en Ísland var þá undir danskri stjórn, sagði að allir „fuldmyndige Mænd“ eða „fullgildir menn“ hefðu rétt til að kjósa sér bæjarfulltrúa. Löggjafarvaldið í Kaupmannahöfn hafði eflaust einungis í huga karlmenn. Vissulega eru konur líka menn á íslensku og hefur verið bent á það sem sennilega skýringu á því hvers vegna Vilhelmína fékk að kjósa. Hún uppfyllti öll skilyrði skv. orðanna hljóðan. En gerðist þetta hægt og hljóðalaust að konurnar komust á kjörskrá? Eflaust ekki. Voru íslensku valdsmennirnir svona framsæknir? Tæplega, því konur fengu ekki kosningarétt fyrr en áratugum síðar. Það kemur ekki fram á kjörskrá né öðrum frumheimildum svo vitað sé að Vilhelmína hafi kært sig inn á kjörskrá, raunar er hún efst á blaði á kjörskránni. Annað sem vekur athygli er nafn Kristbjargar á kjörskránni, sem ekki nýtti atkvæðið. Hún hefði og hefur kannski þá e.t.v. þurft að hafa fyrir því sama og Vilhelmína. Hvers vegna hún nýtti hann ekki er áhugavert í sjálfu sér. Kannski var of umdeilt fyrir konu að kjósa.
Hvað sem þessu líður er sennilegasta skýringin á kosningaþáttöku Vilhelmínu þýðingarvillan þar sem segir að allir „fullgildir menn“ megi kjósa, sem skapaði þennan vafa. Miðað við sögu Vilhelmínu er ekki ólíklegt að hún hafi bent á þetta. Óumdeilt er að konan kaus og það í tvígang! Vilhelmína kaus nefnilega aftur í samskonar kosningum árið 1866. Hver veit, kannski þurfti Vilhelmína að hafa töluvert fyrir því að sannfæra nefndina um rétt sinn, jafnvel í bæði skiptin. Hvað heldur þú lesandi góður?
Þær heimildir sem stuðst var við og fleiri þar sem hægt er að lesa sér frekar til um efnið:
Prentaðar heimildir
Gísli Jónsson. „„Hún hafði gott hjarta.“ Þáttur af fyrstu konu, sem „kaus“ á Íslandi.“ Íslendingur, 18. desember 1981, 10–11.
Jón Hjaltason. Ótrúlegt en satt. Saga Akureyrar í öðruvísi ljósi, stundum skemmtilegu, stundum sorglegu, jafnvel vandræðalegu en alltaf fróðlegu. Akureyri: Völuspá útgáfa, 2021. Sjá bls. 25–27.
Jón Hjaltason. Saga Akureyrar I. Í landi Eyrarlands og Nausta 890–1862. Akureyri: Akureyrarbær, 1990. Sjá bls. 205–208.
Lýður Björnsson. „18 öldin.“ Í Saga Íslands VIII, ritstj. Sigurður Líndal, 5–289. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2006. Sjá bls. 246–249.
Steindór Steindórsson. Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1993. Sjá bls. 23–24.
Vefheimildir
„Kosningréttur kvenna.“ Kvennasögusafn Íslands. Sótt 20. júní 2023. https://kvennasogusafn.is/index.php?page=kosningarettur-kvenna
„Vilhelmína var ekki eina konan á kjörskrá 1863.“ Héraðsskjalasafnið á Akureyri. Sótt 12. júní 2023. https://www.herak.is/is/frettir/vilhelmina-var-ekki-eina-konan-a-kjorskra-1863
Gunnar Karlsson. „Hver er elsti kaupstaður á Íslandi?“ Vísindavefurinn. Sótt 12. júní 2023. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=73186
Helga Hlín Bjarnadóttir. „Fyrstu bæjarstjórnarkosningar Akureyrar 1863 verða sögulegar.“ Þjóðskjalasafn Íslands. Sótt 20. júní 2023. https://skjalasafn.is/heimild/fyrstu_baejarstjornarkosningar_akureyrar_1863_verda_sogulegar
Þjóðskjalasafn Íslands: Sóknarmannatöl. Sótt 22. júní 2023. http://salnaregistur.manntal.is/Leit/3/20/lever/null/0/999/null/null/Eyjafjar%C3%B0arpr%C3%B3fastsd%C3%A6mi/Hrafnagil-Akureyri/null/null/1825/1880
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30