Snorri EA

Rafmagnið kom í íbúðarhús á Akureyri þegar Glerá var virkjuð og Rafveita Akureyrar stofnuð árið 1922. Fyrir þann tíma voru hús kynnt með eldivið og kolum. Kynding gat kallað á mikinn eldivið, sér í lagi þegar frosthörkur voru miklar líkt og tilfelli frostavetursins mikla 1917–1918. Þá lagðist gífurlegur kuldi yfir landið, einkum frá janúar 1918 og fram á vorið. Á Akureyri fór frostið um tíma niður fyrir 35 gráður. Ástandið var svo slæmt að fólk hélt kyrru fyrir í rúminu allan daginn undir sænginni. Kartöflur frusu í kjöllurum og skólum var lokað. Við þessar aðstæður varð eldiviðaskortur á Akureyri eins og víðar. Sumarið var kærkomið en menn mundu vel fimbulkuldann sem ríkt hafði svo vikum og mánuðum skipti. Það yrði að tryggja eldivið fyrir komandi vetur. Að frumkvæði þriggja hugsjónarmanna, Þorsteins Jónssonar og bræðranna Gunnars og Rögnvalds Snorrasona var gerður út leiðangur til eyjarinnar Jan Mayen þar sem fjörur voru fullar af eldiviði. 23. júlí lagði mótorskipið Snorri úr höfn frá Torfunesbryggju og var stefnan sett á Jan Mayen.  

Snorri EA

Áhöfnin var skipuð af níu mönnum: Gunnar Snorrason fararstjóri, Rafn Sigurðsson skipstjóri, Friðrik Steinsson stýrimaður, Axel Jóhannsson og Jón Eðvaldsson vélamenn, Barði Barðason kokkur, Þorvaldur Jacobsen háseti, Johan Svendson, sænskur smiður og trjáviðarsérfræðingur og Freymóður Jóhannsson listmálari, háseti.

Margir sögðu þetta mikla svaðilför og töldu óvíst að þeir kæmust lifandi til baka. Enda var ferðin ekki með öllu hættulaus. Þetta var alllöng sigling þar sem eyjan liggur um 550 kílómetra norðaustur af Íslandi og háskaveður aldrei langt undan jafnvel um hásumar. Þá var fyrri heimsstyrjöldinni ekki lokið og gátu þeir átt á hættu að mæta þýskum herskipum eða kafbátum. Taugarnar hafa því verið þandar á siglingunni. Þannig minnist Freymóður þess þegar skipverjar héldu sig sjá þýskt herskip spúandi reyk sem hvarf skyndilega en birtist stuttu síðar en miklu nær. Komust þeir þá að því að herskipið var ekki eitt heldur tvö, en sem betur fer ekki eiginleg herskip heldur tvær steypireyður!
 Sex dögum eftir brottfaradag, aðfaranótt 29. júlí var komið á áfangastað. Næstu daga könnuðu þeir landshætti auk þess sem Freymóður málaði nokkrar myndir. Megin verkefni þeirra var þó að finna góðan rekavið. Engu var logið um þær sagnir að Jan Mayen væri full af rekaviði og var lestin fyllt af vel völdum við mest greni og fura.
 Skipverjarnir komust síðan heilir á húfi til Akureyrar þann 9. ágúst og var vel tekið á móti þeim. Þóttu þeir hafa unnið mikið afrek með því að sækja rekaviðinn alla leið til Jan Mayen. Vissulega varð veturinn á eftir ekki nærri eins kaldur og frostaveturinn mikli – en viðurinn kom engu að síður í góðar þarfir. Greinargóð lýsing og rannsókn Freymóðs á eynni gefur einstaka mynd af henni. Ferðin var einnig söguleg þar sem um er að ræða fyrstu staðfestu ferð Íslendinga til Jan Mayen og frásagnir þeirra af eyjunni.   


Þær heimildir sem stuðst var við og fleiri þar sem hægt er að lesa sér frekar til um efnið:

Prentaðar heimildir

„Jan Mayen.“ Alþýðublaðið, 28. mars 1962, 8–9.

Freymóður Jóhannsson. „För til Jan Mayen árið 1918.“ Nútíminn 2: 12 (1961): 5.

Freymóður Jóhannsson. „För til Jan Mayen árið 1918 II.“ Nútíminn 2: 13 (1961): 3 og 6.

Freymóður Jóhannsson. „För til Jan Mayen árið 1918 III.“ Nútíminn 2: 14 (1961): 5.

Freymóður Jóhannsson. „För til Jan Mayen árið 1918 IV.“ Nútíminn 2: 15 (1961): 5.

Freymóður Jóhannsson. „Jan Mayen og ferð þangað.“ Óðinn 18: 7–12 (1922): 82–94.

Gísli Jónsson og Jón Hjaltason. Náttúrugæði í hundrað ár. Saga veitnanna á Akureyri. Ritnefnd Baldur Dýrfjörð, Franz Árnason og Helgi Jóhannesson. Akureyri: Norðurorka, 2014.

Sigurður Líndal. „Ísland og Jan Mayen í aldanna rás.“ Fiskifréttir, 16. desember 1994, 12–13.