26. maí árið 1968 var sögulegur dagur á Íslandi. Þá var skipt úr vinstri yfir í hægri umferð. Dagurinn var vel skipulagður og allt gekk nokkuð þrautalaust fyrir sig. Aðfaranótt 26. maí var vegum lokað milli klukkan 03:00–06:00. Þá var vegagerðin á fullu við að leggja lokahönd á skiptinguna sem átti taka gildi klukkan 07:00, en milli 06:00–07:00 máttu aðeins læknar, slökkvilið, lögreglumenn og aðrir sem nauðsynlega þurftu að komast til vinnu aka. Vegagerðin þurfti til dæmis að víxla öllum umferðaskiltum. Mikið var rætt um málið í fjölmiðlum mánuðina á undan en aðgerðin var nokkuð umdeild, sem var þó að endingu samþykkt. Hugmyndin var einkum að auka við umferðaröryggi. Þá höfðu bæði Bandaríkin og flestar Evrópuþjóðir tekið upp hægri umferð og ferðamenn óvanir þeirri vinstri.
Líkt og aðrir bæir á Íslandi tók Akureyri virkan þátt í viðburðinum og um klukkan 07:00 var hægri umferð formlega tekin við á Akureyri sem og annars staðar. Þeir fyrstu sem óku á Akureyri eftir breytingu voru þeir Gísli Ólafsson yfirlögregluþjónn á Akureyri og Stefán Stefánsson bæjarverkfræðingur. Þetta var um klukkan 06:00 og keyrðu þeir saman í bíl eftir Glerárgötu. Þeir keyrðu fyrst á vinstri akrein en beygðu síðan yfir á þá hægri. Var þessi akreinaskipting söguleg enda markaði hún upphaf hægri umferðar á Akureyri.
Þá gripu nokkur norðlensk fyrirtæki tækifærið og nýttu sér daginn og aðdraganda hans til þess að auglýsa sig og þjónustu sína í fjölmiðlum. Til dæmis auglýsti Véladeild KEA í Degi um þremur vikum fyrir „H-daginn,“ líkt og hann var nefndur, að þeir ættu allan ljósabúnað sem til þyrfti fyrir hægri umferð. Fataverksmiðjan Hekla nýtti einnig tækifærið og auglýsti í sama blaði þremur dögum eftir breytingu að þeir seldu H-buxur sem ætti að minna æskufólkið á hægri umferð!
Hér má sjá kvikmyndabrot frá H-deginum sem Níels Halldórsson tók
Þær heimildir sem stuðst var við og fleiri þar sem hægt er að lesa sér frekar til um efnið:
Prentaðar heimildir
„Buxur fyrir H-daginn.“ Dagur, 29. maí 1968, 6.
„H-dagurinn 40 ára, sýning hjá Vegagerðinni.“ Framkvæmdafréttir vegagerðarinnar 16: 16 (2008): 1–2.
„Nýkomnir varahlutir í úrvali.“ Dagur, 4. maí 1968, 3.
ÓÞH. „H-dagurinn var eins og hátíðisdagur.“ Dagur, 26. maí 1993, 6.
Vefheimildir
Örnólfur Thorlacius. „Af hverju keyra sumar þjóðir vinstra megin og aðrar hægra megin?“ Vísindavefurinn. Sótt 25. maí 2023. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6959
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30