Eyrarlandsvegur 26

Brúðkaupsgjafir eru af öllum stærðum og gerðum. Þær verða varla veglegri en eitt stykki hús. Það er raunin með þetta hús, Eyrarlandsveg 26, en gatan dregur nafn sitt af gamla höfuðbólinu sem hún stendur í, Stóra-Eyrarlandi.

Húsið er reist árið 1911 og voru fyrstu eigendur þess hin nýgiftu hjón Sigurður E. Hlíðar dýralæknir og Guðrún Louise Guðbrandsdóttir. Gjöfin rausnarlega var frá móður Guðrúnar, frú Louise Finnbogason sem var auðug kaupmannsekkja í Reykjavík. Húsið, sem nefnt var Breiðablik, kom tilhöggvið frá Noregi og bjuggu hjónin í Breiðabliki í rúm 10 ár. Auk þess að vera dýralæknir kenndi Sigurður einnig um tíma við Gagnfræðaskólann á Akureyri, sem varð að Menntaskólanum á Akureyri 1930. Kannski var það göngufjarlægðin við MA sem réði því að næstu eigendur hússins voru einmitt einnig kennarar við skólann. Guðmundur G. Bárðarson, náttúru- og stærðfræðikennari keypti húsið. Brynleifur Tobíasson yfirkennari keypti síðan húsið af og var það þá gjarnan nefnt Brynleifshús. Kaþólski presturinn séra Hákon Loftsson bjó einnig um tíma í húsinu meðan hann dvaldi á Akureyri 1952–1966 og þjónaði kaþólska söfnuðinum á Norðurlandi en var auk þess stundakennari við MA.  

Árið 1950 eignaðist kaþólski söfnuðurinn  Eyrarlandsveg 26 sem er prestsbústaður kaþólska prestsins á Akureyri. Á horninu við Hrafnagilsstræti 2 er Péturskirkja á Akureyri, sem kaþólska kirkjan á Íslandi keypti í byrjun 6. áratugarins. Íbúðarhúsinu var breytt í kirkju eftir teikningum Kristjönu Aðalgeirsdóttur og Sigríðar Sigþórsdóttur á árinum 1998-2000. Hver veit nema að einhver brúðhjón sem presturinn í Breiðabliki gefur saman í Péturskirkjunni fái einnig hús í brúðkaupsgjöf?

           Eyrarlandsvegur 26

Eyrarlandsvegur 26 - efst til hægri
 

Þær heimildir sem stuðst var við og fleiri þar sem hægt er að lesa sér frekar til um efnið:

Prentaðar heimildir

Steindór Steindórsson. Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1993. Sjá bls. 80–84.

Æviskrár MA-stúdenta I, 1927–1944, ritstj. Gunnlaugur Haraldsson. Reykjavík: Steinholt, 1988. Sjá bls. 287–288.

Örlygur Sigurðsson. Bolsíur frá bernskutíð. Reykjavík: Geðbót, 1971. Sjá bls. 86–87.

Vefheimildir

„Eyrarlandsvegur.“ Húsnæðis- og mannvirkjastofnun: Fasteignaskrá. Sótt 13. júlí 2023. https://fasteignaskra.is/leit-i-fasteignaskra?heitinr=1057336&landnr=147642&streetname=Eyrarlandsvegur+33&sveitarfelag=Akureyrarb%c3%a6r

Hanna Rósa Sveinsdóttir. „Akureyrarbær. Menntaskólinn á Akureyri og aðliggjandi íbúðarsvæði. Húsakönnun 2016.“ Akureyrarbær og Minjasafnið á Akureyri. Sótt 13. júlí 2023. https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Deiliskipulog/Menntaskolinn_og_ibudasvaedi/husakonnun_ma.pdf