Iðnskólinn

Það er ekki margt sem bendir til þess að hér hafi verið skóli frá morgni til kvölds, fyrir utan hóflegan veggskjöldinn. Hvað þá að það hafi verið byggt sem skólahús úr merkilegu íslensku byggingarefni.

Iðnskólinn á Akureyri eða Iðnskóli Akureyrar var stofnaður 20. nóvember árið 1905 að frumkvæði Jóns Guðmundssonar byggingarmeistara og Oddi Björnssyni prentmeistara forkólfa Iðnaðarmannafélags Akureyrar.
Skólastarfið fór fram á kvöldin í Barnaskóla Akureyrar á kvöldin. Framan af átti iðnskólinn erfitt uppdráttar framan af. Það breyttist hins vegar til batnaðar árið 1928 þegar Iðnaðarmannafélagið lét verða að því að byggja hús fyrir skólann á lóð sem félagið hafði fengið leigða fyrir funda- og skólahús. Það er húsið sem við stöndum hjá, Lundargata 12 og er teiknað af Sveinbirni Jónssyni byggingarmeistara og byggt úr r-steini sem hann hannaði.

Sveinbjörn hafði lært iðngrein sína í Noregi og snemma mun hafa mótast sú hugsun hjá honum að best væri að hús á Íslandi væru byggð eins mikið og unnt var úr innlendum efnum. Á Akureyri hannaði hann stein fyrir húsbyggingar sem átti eftir að verða notaður í húsagerð víða um land á tímabili, sérstaklega þó á Norðurlandi. Steinninn nefndist r-steinn því hann var eins og lítið r í laginu. Líkt og með flest hús sem liggja eftir Sveinbjörn var Lundargata 12 reist með r-steinum. Sveinbjörn hannaði einnig vél til þess að steypa steinana í. Um miðja 20. öld var að mestu hætt að notast við r-steina, en þá voru önnur einangrunarefni farin að ryðja sér til rúms sem ekki hentuðu lögun og byggingu steinsins.

Eftir að Iðnskólinn fékk sitt eigið húsnæði í Lundargötunni hélt hann áfram að vera kvöldskóli, iðnnemar unnu með meisturum sínum á daginn en kennslan fór fram á kvöldin. Árið 1930 var Gagnfræðaskóli Akureyrar settur á stofn og var hann fyrstu árin í Lundargötu 12. Því var húsið nýtt í kennslustundir frá morgni til kvölds. Síðar seldi Iðnskólinn Gagnfræðaskólanum húsið og fór þá iðnmenntun að mestu fram í húsnæði Húsmæðraskólans við Þórunnarstræti 99. Iðnskólinn eignaðist svo lokst aftur eigið húsnæði árið 1969, en það er Þingvallastræti 23 sem í dag hýsir hótel. Þegar Verkmenntaskólinn á Akureyri var settur á stofn færðist öll kennsla í iðngreinum þangað.

 

Þær heimildir sem stuðst var við og fleiri þar sem hægt er að lesa sér frekar til um efnið:

Prentaðar heimildir

„Gagnfræðaskóli Akureyrar 50 ára.“ Morgunblaðið, 1. nóvember 1980, 24–25.

„Iðnaðarmannafélag Akureyrar hefur gegnt menningarstarfi í hálfa öld.“ Dagur, 24. nóvember 1954, 5 og 7.

„Iðnskóli Akureyrar 70 ára.“ Dagur, 17. mars 1976, 1.

Friðrik G. Olgeirsson, Halldór Reynisson, Magnús Guðmundsson. Byggingameistari í stein og stál. Saga Sveinbjarnar Jónssonar í Ofnasmiðjunni 1896–1982. Reykjavík: Ofnasmiðjan: Fjölvi, 1996. Sjá einkum kafla 5 og 6.

Hannes J Magnússon. „Skólabærinn Akureyri.“ Morgunblaðið – Akureyri 100 ára, 29. ágúst 1962, 14–15.

Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. Oddeyri. Húsakönnun 1990–1994. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri: Skipulagsdeild Akureyrarbæjar, 1995. Sjá bls. 58 og 105–106.

Steindór Steindórsson. Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1993. Sjá bls. 152.