Það er stundum sagt að stærðin skipti ekki öllu máli. Fyrir framan Verkmenntaskólann á Akureyri er risa stór stytta sem er tákn skólans. Fyrirmyndin sem er frá árinu 1000 er öllu minni, 6,7 cm að hæð, sem dregur síður en svo úr sögulegu mikilvægi hennar. En hvers konar stytta er þetta og hvaðan kom hún?
Árið 1815/1816 fannst þessi smáa stytta á Eyrarlandi. Þar vandast málið því þau eru tvö Eyrarlöndin við innanverðan Eyjafjörð, annað í Öngulstaðarhreppi, sem er sunnar í firðinum, en hitt Stóra-Eyrarland náði yfir meginhluta Brekkunnar, t.d. er VMA í landi Stóra-Eyrarlands. Það er því ekki tilviljun að skólinn valdi þetta tákn. Í einhver ár hefur styttan prýtt heimili þess sem hana fann en mikilvægi hennar fer ekki fram hjá nokkrum því nokkrum árum síðar var hún send til Kaupmannahafnar. Þar var hún til 1930 er Danir afhentu hana Þjóðminjasafni Íslands þar sem hún er lykilgripur á grunnsýningu þess í dag.
Styttan smáa er úr bronsi og sýnir mann sitjandi í stól, með hatt og skegg, sem heldur utan um skegg sitt en út frá því myndast annað hvort hamar eða kross. Þar liggur efinn. Er þetta Þór eða Kristur? Eða er þetta hnefinn? Kóngur í hnefatafli, leik frá víkingatíð?
Stílbragðið bendir til að þetta sé Kristur en hluturinn sem persónan heldur á líkist þó frekar mjölni. Það væri skrítið að halda á krossi með þessum hætti. Það vill þannig til að landnámsmenn voru margir hverjir blendnir í trúnni, t.d. Helgi magri landnámsmaður Eyjafjarðar. Þá var heimilt eftir kristnitöku að iðka heiðna trú á laun. Voru það klókindi að hafa styttuna svona óræða? Svona ef hún lægi á glámbekk. Venjan er hins vegar að tala um Þórslíkneski. Hvað heldur þú? Hvort er þetta Þór eða Kristur? Eða kannski hvorugur?
Varla fáum við nokkurn tímann að vita um hvort Eyrarlandið ræðir þar sem líkneskið fannst, enda skiptir það raunar ekki svo miklu máli. Þórslíkneskið sem vígt var á 20 ára afmæli VMA er í það minnsta á hinu forna Stóra-Eyrarlandi og er glæsilegt tákn VMA ,sem nefnir nemendafélag sitt Þórdunu og einn sal skólans Þrúðvang, sem merkir ríki Þórs.
Þær heimildir sem stuðst var við og fleiri þar sem hægt er að lesa sér frekar til um efnið:
Prentaðar heimildir
„Líkneski af Þór afhjúpað.“ Morgunblaðið, 25. maí 2004, 20.
Kristján Eldjárn. „Þórslíkneski svonefnt frá Eyrarlandi.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 79 (1982): 62–75.
Vefheimildir
„800–1000 Upphaf Íslandsbyggðar“ Þjóðminjasafn Íslands. Sótt 5. júlí 2023. https://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/grunnsyning/thjod-verdur-til/timabil/800-1000-upphaf-islandsbyggdar
„Þjóð verður til. Menning og samfélag í 1200 ár.“ Þjóðminjasafn Íslands. Sótt 5. júlí 2023. https://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/grunnsyningar/umsyninguna
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30