Dagana 20.–22. júní árið 1890 var haldin héraðshátíð á Oddeyri í tilefni þess að 1000 ár voru liðin frá því Helgi magri nam Eyjafjörð. Matthías Jochumsson hafði frumkvæði að hátíðinni og var jafnframt formaður forstöðunefndar, eins og hún hét. Mikill metnaður var lagður í hátíðina og var henni valinn staður á Oddeyri norðan við Strandgötu og austan við Norðurgötu. Var ýmislegt um að vera þessa þrjá daga. Til dæmis voru sýningar á kvikfénaði úr nokkrum hreppum Eyjafjarðarsýslu, reist var stórt veitingatjald og danspallur, dönsk herskip sem lágu við höfnina skutu úr fallbyssum svo nokkuð sé nefnt. Einnig var keppt í kappróðri og urðu Svarfdælingar hlutskarpastir! Í verðlaun var silfrað akkeri umvafið keðju, en framan á því var hitamælir. Á myndinni hér til hliðar má sjá verðlaunagripinn, en hitamælirinn hefur glatast.
Umfangsmesta og eftirminnilegasta skemmtiatriði hátíðarinnar var þó sjónleikurinn Helgi magri eftir Matthías Jochumsson sem hann samdi sérstaklega fyrir hátíðina. Um 1200 manns sáu sjónleikinn en 4000 voru viðstödd hátíðarhöldin.
Myndin er af Oddeyri eins og hún leit út nokkrum árum eftir hátíðarhöldin.
Þær heimildir sem stuðst var við og fleiri þar sem hægt er að lesa sér frekar til um efnið:
Prentaðar heimildir
„Leikari og prentari í hálfa öld.“ Vikan 7: 13 (1944): 1, 3 og 7.
Haraldur Sigurðsson. Saga leiklistar á Akureyri 1860–1992. Akureyri: Leikfélag Akureyrar, 1992. Sjá bls. 6–16.
Jónas Stefánsson. Frá Kotá til Kanada. Eyfirzkur Vestur-Íslendingur segir frá. Akureyri: Prentsmiðja Björns Jónssonar, 1957. Sjá bls. 30–31.
Stefán Jónsson. Jóhannes á Borg. Minningar glímukappans. Reykjavík: Ægisútgáfan, 1964. Sjá bls. 28–29.
Vefheimildir
„100/1962-100.“ Sarpur. Sótt 12. júlí 2023. https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=246732
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30