Frá því að ljósmyndir komu til sögunnar vildu allir eiga ljósmynd af sér og sínum. Jafnvel fátækasta fólk nurlaði saman krónum og aurum og lét festa sig á filmu. Á Oddeyri starfaði ljósmyndarinn Guðrún Funch-Rasmussen (1890–1957) og rak ljósmyndastofu við Strandgötu 15 (1917-1920) og í Gránufélagsgötu 21 (1923-1957).
Á þeim árum sem Guðrún rak stofu sína var alvanalegt að ákveðnar stéttir ættu sinn ljósmyndara. Hún var ljósmyndari fátæka alþýðufólksins á Akureyri og Oddeyri. Þetta má glögglega sjá á fatnaði og útliti fólksins á myndum hennar, en hún ljósmyndaði mest fólk.
Þegar Guðrún nam ljósmyndun hjá Hallgrími Einarssyni veturinn 1910–1911, þá 20 ára og vann hjá honum árið eftir. Hún rak eigin ljósmyndastofu á Sauðárkróki (1913 eða 1914) áður en hún fór til náms í Kaupmannahöfn 1913–1916. Með dugnaði og hagsýni aflaði hún sér fjár til að stunda nám í Kaupmannahöfn í ljósmyndun og hannyrðum.
Við heimkomuna 1917 opnaði Guðrún ljósmyndastofu í Strandgötu 15 á Akureyri, sem hún rak til 1920. Þá fóru hún og maður hennar, Lauritz Funch-Rasmussen aftur til Kaupmannahafnar. Þar bjuggu þau um þriggja ára skeið og nýtti Guðrún tækifærið til að auka við ljósmyndamenntun sína þar sem hún lærði meðal annars að stækka myndir og útvegaði sér stækkunarvél.
Þegar Guðrún og Lauritz snéru aftur til Akureyrar árið 1923 opnaði Guðrún ljósmyndastofu í kjallara Gránufélagsgötu 21 Akureyri. Húsnæðið var afar óhentugt þar sem gluggar stofunnar snéru í suður og sólin átti það til að skína beint inn og gera lýsingu við myndatöku missterka. Guðrún brást við þessu með því að draga hvít lök fyrir glugga til að dempa suðursólina. Þetta má meðal annars sjá á ljósmyndum hennar því birtan er dreifðari og mýkri. Lágt var til lofts í kjallaranum og til að auka lýsinguna hafði hún nokkrar óvarðar rafmagnsperur í loftinu yfir fyrirsætunum. Árið 1927 var byggt við húsið til norðurs og þakinu lyft og flutti myndastofan árið 1928 úr kjallaranum í norðaustur horn hússins og gerði stóran glugga til norðurs sem var venja á ljósmyndastofum þess tíma. Batnaði þá ljósmyndaðstaða hennar til muna.
Í kjallaranum á Gránufélagsgötu 21, til hægri á myndinni, rak Guðrún ljósmyndastofu. Lökin í gluggunum voru til að draga úr birtu við ljósmyndatökurnar.
Þær heimildir sem stuðst var við og fleiri þar sem hægt er að lesa sér frekar til um efnið:
Prentaðar heimildir
Guðrún Funch-Rasmussen. „Ljósmyndastofan í Gránufélagsgötu 21.“ Dagur, 24. október 1924, 182.
Guðrún Funch-Rasmussen. „Stórt verðfall á ljósmyndum í Gránufélagsgötu 21.“ Dagur, 10. janúar 1924, 4.
Guðrún Funch-Rasmussen. „Vegabréfsmyndir.“ Íslendingur, 20. mars 1943, 4.
Björn Stefánsson. „Frú Guðrún Funch Rasmussen.“ Morgunblaðið, 20. júlí 1957, 15.
Inga Lára Baldvinsdóttir. Ljósmyndarar á Íslandi 1845–1945. Photographers of Iceland 1845–1945. Reykjavík: JPV: Þjóðminjasafn Íslands, 2001. Sjá bls. 194–195.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30