Lengi vel stóð hús eitt við Gránufélagsgötu sem kallað var Norðurpóllinn. Það var austast og þar með neðst í Gránufélagsgötunni, stóð nokkuð afskekkt en „skein við hverjum þeim sem kom siglandi inn fyrir Oddeyrartangann“ líkt og Jón Hjaltason segir í Sögu Akureyrar III. Talað var um að húsið stæði „út í Eyjum“ enda staðsett við Ósinn auk þess sem tjarnir og votlendi voru þar allt um kring. Margir muna eftir húsinu úr sjónvarpskvikmyndinni Vandarhögg frá 1979 eftir Jökul Jakobsson í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar. Þar má m.a. sjá þegar grafa rífur niður Norðurpól sem voru endalok húss sem þjónaði ýmsum misvirðulegum hlutverkum á rúmlega 70 ára lífsskeiði sínu.
Gránufélagsgötu 57A – Norðurpól reisti Kristján Markússon árið 1907. Húsið komst í eigu hjónanna Sigríðar Ingimundardóttur og Magnúsar Þórðarsonar sem ráku þar veitingahús um árabil. Veitingareksturinn fékk aðlaðandi nafn, „Nordpolen“ sem var málað stórum stöfum á miðjukvistinn. Staðurinn var mikið sóttur af erlendu ferðafólki og sjómönnum, einkum norskum.
Veitingareksturinn fékk fljótlega á sig fremur vafasamt orðspor. Lítið mál var að fá áfengi í Norðurpólnum þrátt fyrir að staðurinn væri ekki með vínveitingaleyfi. Áfengisbannið frá 1915 virðist heldur ekki hafa náð inn fyrir dyr Norðurpólsins. Oft var sukksamt þar og sagt var að félagsskapur við ungar konur væri auðfenginn gegn dálitlu gjaldi. Ómögulegt er að henda reiður á slíkar sagnir en umtalið í bænum var vissulega mikið og jafnvel talað um húsið sem gleðihús!
Í Gjallarhorni 4. ágúst 1910 er forvitnileg frásögn af húsinu og rekstrinum. Þar lýsir greinarhöfundur, sem nefnir sig Krák, heimsókn sinni í húsið: „Frúin opnaði litla herbergið á bak við og feitur útlendur skipherra tók sér þar bólfestu. Við fórum, en fleiri og fleiri bættust við og ánægjulegur kliður heyrðist út um opna gluggana. Það er, svei mér, viðskiftaumsetning og fjör »út í Eyjum«. Gluggatjaldið fyrir glugganum á litla herberginu var dregið niður.“ Af frásögn Kráks að dæma fór eitthvað fram í litla herberginu sem ekki þoldi dagsins ljós.
Veitingarekstur þeirra hjóna stóð fram yfir 1925 en árið 1930 eignaðist húsið bóndinn Konráð Vilhjálmsson frá Hafralæk í Aðaldal. Konráð gerðist barnaskólakennari, var skáld og fræðimaður. Eftir að Konráð eignaðist húsið lét hann mála yfir danska heitið en setti staðinn „Norðrpóll“ skrifað upp á forna stafsetningu, enda Konráð mikill áhugamaður um íslenskar fornbókmenntir. Fyrstu árin eftir að fjölskyldan frá Hafralæk fluttist í húsið kom það nokkrum sinnum fyrir að erlendir sjómenn knúðu dyra því þeir héldu að veitingareksturinn væri enn í fullu fjöri.
Konráð andaðist 1962 og eignaðist KEA húsið en hafði þó fljótlega lítil not fyrir það. Ástand hússins fór hrakandi vegna lélegs viðhalds og var það loks rifið árið 1979. Endaði viðurinn í þrettándabrennu hjá íþróttafélaginu Þór. Tveir skreyttir litgluggar urðu þó ekki eldinum að bráð og eru varðveittir á Iðnaðarsafninu.
Þær heimildir sem stuðst var við og fleiri þar sem hægt er að lesa sér frekar til um efnið:
Prentaðar heimildir
Árni Þórarinsson. „Enginn verður óbarinn hvað?“ Helgarpósturinn, 21. desember 1979, 24–25.
Hágé. „Norðurpóllin logar.“ Þjóðviljinn, 11. janúar 1980, 7.
Jón Hjaltason. Saga Akureyrar III. Fæðing nútímamannsins 1906–1918. Akureyri: Akureyrarbær, 2000. Sjá bls. 95–98.
Krákur. „Akureyrarlíf.“ Gjallarhorn 4: 1 (1910): 3.
Steindór Steindórsson. Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1993. Sjá bls. 93.
VG. „„Brauðkeflið á heimilinu gegndi þremur mismunandi hlutverkum.““ Dagur, 27. nóvember, 6–8.
Vefheimildir
„,,Út í Eyjum“ – Norðurpóll.“ Héraðsskjalasafnið á Akureyri. Sótt 10. ágúst 2023. https://www.herak.is/is/frettir/ut-i-eyjum-nordurpoll
Þjóðskjalasafn Íslands: Sóknarmannatöl. Sótt 11. ágúst 2023. http://salnaregistur.manntal.is/Leit/0/20/%22sigr%C3%AD%C3%B0ur%20ingimundard%C3%B3ttir%22/null/20/60/null/null/Eyjafjar%C3%B0arpr%C3%B3fastsd%C3%A6mi/null/null/null/1909/1930
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30