Eyrarlandsstofa

Eyrarlandsstofa til vinstri - Eyrarlandsbærinn til hægri.

Var Geirþrúður Thyrrestrup ríkasta kona á Akureyri rænd og ófrægð?

Í Eyrarlandsstofu bjó um miðja 19. öld ríkasta kona á Akureyri ef ekki Íslandi. Húsið sem var byggt á árunum 1844-1848 dregur nafn sitt af hinu forna höfuðbóli Stóra-Eyrarlandi sem var metin á 100 hundruð, en meðal jörð var um 20 hundruð. Gamla stórbýlið er vart sjáanlegt lengur, t.d. eru bæði Lystigarðurinn, Menntaskólinn og Fjórðungssjúkrahúsið í landi Stóra-Eyrarlands. Eyrarlandsstofa stóð lengst af þar sem bílastæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er núna. Árið 1987 var það fært um nokkra tugi metra inn í Lystigarðinn og hefur starfsfólk Lystigarðsins haft þar aðsetur um árabil.

Ekkjan Geiþrúður Thyrrestrup (1805-1864) varð eignakona þegar hún ung að árum erfði jörðina Eyrarland eftir mann sinn Magnús Thorarensen ásamt 2000 ríkisdölum og síðar umtalsverða fjármuni eftir danska foreldra sína og systur eða um 13300 ríkisdali. Fyrir vikið var hún á sínum tíma ríkasta kona bæjarins – og líklega á öllu landinu. Velgengni veldur þó oft öfund og afbrýði.

Geirþrúður lifði nokkuð hátt, hærra en almannarómur þoldi. Hún hélt vegleg boð og dansleiki í Eyrarlandsstofu og aldrei skorti vín né veitingar. Það skorti heldur ekki sögurnar sem gengu um bæinn um lífernið í Eyrarlandsstofu. Þar dvaldi um tíma giftur maður, Jóhann Guðmundsson, sem sagt var að ætti í ástarsambandi við Geirþrúði. Það þótti mikið hneyksli og var rætt um að svipta eignakonuna sjálfræði vegna þessa. Jóhann var því fljótlega sendur á brott. Síðar varð hún ástfanginn af öðrum Jóhanni, Jóhanni Jakob, sem sendur hafði verið hreppaflutningum frá Kaupmannahöfn til fæðingarsveitar sinnar, Hrafnagilshrepps, sem Akureyri tilheyrði áður en bærinn fékk kaupstaðarréttindi 1862. Ríkidæmi Geirþrúðar veitti henni ekki allt það frelsi sem hugsast gat því þótt skötuhjúin vildu giftast var þeim neitað um vígslu. Þau héldu þó áfram að vera saman í óvígðri sambúð á Eyrarlandsstofu. Þegar upp kom lekandi á Akureyri og var hann rakinn til Eyrarlandsstofu og var heimilið í kjölfarið sett í einangrun. Hefðarfrúin sinnti því litlu og hélt sína dansleiki.

Líferni Geirþrúðar og eyðslusemi var umtöluð í bænum og var sem fyrr talað um hvort svipta ætti hana sjálfræði. Enginn þrýsti jafn mikið á það og tengdasonur hennar, séra Daníel Halldórsson. Honum fannst eyðslusemi og ólífi tengdamóðurinnar úr öllu hófi. Eftir miklar deilur og bréfaskrif við sýslu- og amtmann fékk klerkurinn sínu framgengt árið 1861. Sigurinn var ekki algjör því hann fékk ekki umsjón með fjármunum hennar. Það hlutverk var falið virðulegum verslunarstjóra, faktor Bernhard August Steincke sem fór fljótlega að stunda viðskipti með fé og eignir Geirþrúðar. Einn sá fyrsti til þess að fá lán úr eignastýringu Steincke var enginn annar en séra Daníel Halldórsson! Nokkrum árum síðar lést Geirþrúður.

Saga Geirþrúðar er sorglegt dæmi um hversu bág kjör kvenna voru á þessum tíma, jafnvel hefðarfrúar. Réttindi þeirra voru skert og undir körlum komin. Álitið var að hlutverk þeirra í samfélaginu fælist fyrst og fremst í barnauppeldi og heimilishaldi. Það var ekki í þeirra verkahring að höndla með eignir og peninga. Hins vegar voru karlmenn oft litlu skárri en þá var yfirleitt tekið öðruvísi á málunum. Jafnvel þó að Geirþrúður hafi lifað hátt á sínu lífsskeiði var nóg eftir í búi hennar þegar hún lést eða yfir 10000 ríkisdalir.

Eyrarland VS

Eyrarlandsstofan er til vinstri á myndinni.

Fyrst og fremst var notast við stórgóða umfjöllun Jóns Hjaltasonar sagnfræðings af málaferlum þessum í bókinni Sögu Akureyrar I. Einnig voru nýttar nokkrar heimildir til viðbótar:

Frumheimildir

Árni Magnússon og Páll Vídalín. Jarðabók Árna Magnússon og Páls Vídalín. Eyjafjarðarsýsla. Kaupmannahöfn: Hið ísl. fræðafél.; Reykjavík: Sögufél. umboð, 1987.

Prentaðar heimildir

„Eyrarlandsstofa varðveitt í Lystigarði Akureyringa.“ Morgunblaðið, 2. júlí 1987, 42.

Jón Hjaltason. Saga Akureyrar I. Í landi Eyrarlands og Nausta 890–1862. Akureyri: Akureyrarbær, 1990. Sjá einkum bls. 136–140.

Steindór Steindórsson. Akureyri. Höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur, 1993. Sjá einkum bls. 79–80.

Vefheimildir

„Eyrarlandsstofa, Lystigarðinum.“ Minjastofnun Íslands. Sótt 29. júní 2023. https://www.minjastofnun.is/is/byggingararfur/fridlyst-hus-og-mannvirki/eyrarlandsstofa

Gísli Gunnarsson. „Hversu stór er einingin hundrað, sem notuð var um stærð jarða?“ Vísindavefurinn. Sótt 28. júní 2023. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2256