Þegar haldið var upp á 1000 ára landnámsafmæli Eyjafjarðar árið 1890 var sjónleikurinn Helgi magri eftir Matthías Jochumsson vinsælasta atriði hátíðarinnar. Áhuginn var mikill fyrir leiklist á Akureyri en 15 árum áður, 1875 hafði Jakob V. Havsteen verslunarstjóri stofnað Gleðileikjafélagið sem stóð fyrir sýningum og sjónleikjum. Félagið var því fengið til að hafða umsjón með Helga magra. Sjónleikurinn var vel sóttur og sýndur öll kvöld hátíðarinnar, dagana 20.–22. júní í pakkhúsi neðst á Oddeyrartanga, fyrir neðan Gránufélagshúsið. Þótti mörgum mikið til koma. Haraldur Sigurðsson segir í bók sinni Saga leiklistar á Akureyri 1860–1992 að leiksýningin hafi verið „aðalumræðuefni bæjarbúa um langa hríð. Almenningur var sem uppnuminn af hrifningu að sjá hina glæstu fornmenn með alvæpni og þótti næsta ótrúlegt er Helgi hinn magri og lið hans kom „siglandi“ inn gólf vöruskemmunnar og sté á land sem við „Festarklett“ væri! Slíkt þótti göldrum líkast“. Með aðalhlutverk fóru Páll J. Árdal (Helgi magri) og Anna M. Stephensen (Þórunn hyrna).
Hafa ýmsir sem sáu sýninguna minnst hennar seinna meir. Glímukappinn Jóhannes Jósefsson á Borg, sem ólst upp á Oddeyri, minnist þess þegar hann var sjö ára og gerði ásamt tveimur vinum sínum fremur misheppnaða tilraun til þess að svindla sér inn á sýninguna. Það gekk ekki sem skildi og sátu félagarnir skælandi fyrir utan húsið. Skömmu síðar bar sjálft skáldið og höfund verksins að garði og bauð þeim að sitja við hlið sér á meðan sýningunni stæði. Þeir voru ekki lengi að jánka því. Jóhannes segir að sýningin hafi verið „stórkostleg, með vopnaglammi og látum, hátíðlegu fasi og orðbragði, sem við botnuðum ekkert í, en ljómaði í glampa af brugðnu stáli.“
Margir stigu sín fyrstu skref á leiklistarbrautinni í þessum sjónleik, t.d. Friðfinnur Guðjónsson, þá prentari á Akureyri, einn þekktasti gamanleikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur á sínum tíma. Margrét Valdimarsdóttir tók þátt í sýningunni þá aðeins 10 ára gömul en hún varð síðar fræg leikkona hjá Leikfélagi Akureyrar.
Alls munu yfir 4000 manns hafa komið til þess að vera viðstödd hátíðarhöldin og þar af sáu 1200 sýninguna. Í dag má deila um hvort sjónleikurinn sé mikið leikhúsverk, hins vegar er hann merkilegur fyrir að vera fyrsti sögulegi sjónleikurinn á íslensku.
Þær heimildir sem stuðst var við og fleiri þar sem hægt er að lesa sér frekar til um efnið:
Prentaðar heimildir
„Leikari og prentari í hálfa öld.“ Vikan 7: 13 (1944): 1, 3 og 7.
Haraldur Sigurðsson. Saga leiklistar á Akureyri 1860–1992. Akureyri: Leikfélag Akureyrar, 1992. Sjá bls. 6–16.
Jónas Stefánsson. Frá Kotá til Kanada. Eyfirzkur Vestur-Íslendingur segir frá. Akureyri: Prentsmiðja Björns Jónssonar, 1957. Sjá bls. 30–31.
Stefán Jónsson. Jóhannes á Borg. Minningar glímukappans. Reykjavík: Ægisútgáfan, 1964. Sjá bls. 28–29.
Vefheimildir
„100/1962-100.“ Sarpur. Sótt 12. júlí 2023. https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=246732
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30