Það hefur ekki alltaf verið skylda að mæta í skólann! Ekki fyrr en með en með fræðslulögunum 1907 sem komu á fræðsluskyldu hjá börnum á aldrinum 10-14 ára. Fræðslan hafði yfirleitt farið fram á heimilum, foreldrar, prestar eða farkennari sáu um uppfræðsluna.
Þeir voru stórhuga íbúar Glerárþorps, sem varð ekki hluti Akureyrar fyrr en árið 1955, þegar þeir stefndu að byggingu barnaskólahúss fyrir börnin í Þorpinu í kjölfar fræðslulaganna. Fyrstu býlin í Þorpinu byggðust upp af fátæku fólki sem kom úr sveitunum og vildi reyna fyrir sér við sjávarsíðuna. Barnafjöldinn var mikill t.d. voru 18 börn í Glerárþorpi á aldrinum 10–14 ára árið 1909. Börnin skyldu fá það besta í Þorpinu og tóku nokkrir íbúar sig til og stofnuðu Skólahúsfélag Glerárþorps, hófu söfnun fyrir skólahúsnæði og kusu fimm manna bygginganefnd. Á stofnfundinum lofuðu fundarmenn allt að 50 klukkustunda vinnu við byggingu hússins endurgjaldslaust jafnframt því að ganga í ábyrgð fyrir lántöku byggingarinnar.
Skólahúsið reis hratt í Sandgerðisbótinni og var fullbyggt 1. nóvember 1908. Ríkið lagði til 400 krónur við uppbyggingu hússins sem var aðeins um 17% af heildarkostnaði. Því kom bróðurpartur fjárins frá fátækum íbúum þorpsins. Húsið var nefnt Ós, kennt við Óseyri, og stendur enn.
Húsið er eitt fyrsta steinsteypta húsið á Akureyri. Byggingu þess stjórnaði Páll Markússon múrari sem réði mestu um hönnun og útlit þess. Eitt af einkennum hússins voru gluggarnir sem heilluðu börnin og margir minnast sem sóttu skóla í Ós. Eiríkur Sigurðsson lýsir húsinu svona:
„Gengið var inn í norðausturhorn hússins og komið inn í gang, þar sem börnin geymdu yfirhafnir sínar. Innan við var allrúmgóð skólastofa með ofni við vegginn hægra megin við dyrnar, en steinolíulampi hékk í miðri stofunni og lýsti hana upp. Auk þess voru tveir litlir vegglampar. Á austurhlið voru þrír allstórir gluggar með litlum rúðum og var ekki hægt að opna þá fyrstu árin. Sigurjón Jónsson mun lengst af hafa séð um upphitun hússins og ræstingu, enda bjó hann í næsta húsi við.“
Árið 1916 var húsið dæmt ónothæft sökum kulda, en í því var steingólf og veggir einfaldir. Næstu þrjá vetur var skólinn á flakki en árið 1919 var ráðist í endurbætur á húsinu og lagt í það trégólf og nýr ofn fenginn. Eftir það var kennt í því samfleytt til 1938 þar til skólinn flutti í Árholt og frá 1972 í núverandi húsnæði Glerárskóla.
Ýmislegt félagsstarf fór fram í húsinu auk kennslu. Ós var lengi samkomuhús Glerárþorpsbúa og þar haldin böll og dansleikir. Í því funduðu líka ýmis félög í þorpinu t.d. Verkalýðsfélag Glerárþorps, stúkan Tilraun, barnastúkan Von nr. 75, Kvenfélagið Baldursbrá, lestrarfélag Glerárþorps og fleiri.
Þær heimildir sem stuðst var við og fleiri þar sem hægt er að lesa sér frekar til um efnið:
Prentaðar heimildir
Alþingistíðindi 1907. Frumvarp til laga um fræðslu barna, 150–159. Vefútgáfa Alþingistíðinda Sótt 18. júlí 2023.
Byggðir Eyjafjarðar I. Ritnefnd Ármann Dalmannsson, Eggert Davíðsson og Sveinn Jónsson. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar, 1973. Sjá bls. 313–315.
EHB. „Barnafræðsla í Glerárþorpi 80 ára.“ Dagur, 24. mars 1988, 7–10.
Eiríkur Sigurðsson. Barnaskóli á Akureyri í 100 ár. Akureyri: Fræðsluráð Akureyrar, 1972. Sjá bls. 65–71.
Guðrún Sigurðardóttir. „Barnaskólahúsið í Sandgerðisbót og skólahaldið þar.“ Súlur 8: 2 (1978): 152–163.
Loftur Guttormsson, ritstj. Skólahald í bæ og sveit 1880–1945. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2008. Sjá einkum fyrsta kafla annars hluta, bls. 75–89.
Minjasafnið á Akureyri, Minjasafnskirkjan og Nonnahús opið daglega 13-16
Iðnaðarsafnið opið daglega 13-16
Laufás lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Leikfangahúsið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Davíðshús lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Smámunasafnið lokað nema fyrir fyrirfram bókaða hópa
Opið fyrir skólahópa frá kl. 8:30