Nonnastytta

Gætir þú ímyndað þér að týna styttu á stærð við þessa sem er fyrir framan þig?

Þrátt fyrir að hafa einungis búið í nokkur ár á Akureyri er rithöfundurinn Jón Sveinsson – Nonni líklega þekktasti einstaklingurinn í sögu bæjarins. Hann ólst upp á Möðruvöllum í Hörgárdal og síðar í Aðalstræti 54A, nú Nonnahús, en fékk ungur einstakt tækifæri til þess að fara utan til náms árið 1870. Gerðist hann jesúítaprestur og síðar vinsæll barnabókarithöfundur víða um heim. Skipar Akureyri og Eyjafjörður ríkan sess í bókum Nonna þar sem margar hverjar eru skrifaðar með hliðsjón af löngu liðnum æskudögum höfundarins í Eyjafirði.
            Árið 1952, átta árum eftir lát Nonna, eignaðist Zontaklúbbur Akureyrar Nonnahús. Þær höfðu áhuga á að halda heiðri rithöfundarins á lofti og opnuðu safn honum til heiðurs í húsinu árið 1957 og ráku til 2007. Upp frá því hafa Zontakonur í gegnum tíðina reynt að safna hlutum og munum sem tengdust Nonna.

Í júlímánuði árið 1992 skrifaði Anna S. Snorradóttir, frumkvöðull í stofnun Zontaklúbbs Akureyrar grein í Morgunblaðið sem bar yfirskriftina „Hvar er styttan af Nonna?“ Hún hafði fyrr á árinu farið á sýningu á verkum Nínu Sæmundsson myndlistarkonu og séð ljósmynd af Nínu leggja lokahönd á stærðarinnar styttu af Nonna. Styttuna var hins vegar ekki að finna á sýningunni. Styttan hafði verið gerð að beiðni menntamálaráðs árið 1958 og átti að vera við æskuslóðir Nonna á Akureyri. Nína gerði gifsafstyttu af Nonna sem átti að senda til Kaupmannahafnar og steypa í málm. Stóð styttan um tíma í afgreiðslu Eimskipafélagsins sem átti að ferja hana út. Það fórst hins vegar fyrir og dagaði hún uppi hjá félaginu. Eins og styttur gera! Eftir það var lítið var vitað um afdrif styttunnar. Áhugi Önnu var kviknaður og hún einsetti sér að finna styttuna.
Ýmsar tilgátur voru settar fram og margar ábendingar um hvar týndu styttuna væri að finna. Þó var enginn miðill fenginn í málið. Smám saman komst skýrari mynd á málið.  Styttan átti að vera staðsett á Borgarbókasafninu í Þingholtunum. Þangað hélt Anna en greip í tómt. Styttan hafði vissulega verið þar frá 1977 fram yfir 1980 en líklega verið send á Korpúlfsstaði. Þær eru margar vistarverurnar á Korpúlfsstöðum og þrátt fyrir mikla leit fannst ýmislegt en engin stytta. En leitið aftur og þá munuð þér finna. Því í eftirleitum fannst kassi með styttunni stóru af Nonna á lofti Korpúlfsstaða og það í góðu ásigkomulagi. Í kjölfarið gaf menntamálaráð Zontakonum á Akureyri styttuna sem voru ákveðnar í að týna ekki styttunni aftur. Hún var því send til Þýskalands árið 1995 og steypt í brons og send aftur heim til Íslands að verki loknu. Nonnastytta var svo sett á sinn stall og vígð á æskuslóðum Nonna á afmæli Akureyrarbæjar, týnda styttan var loksins komin á áfangastað eftir 37 ár á hrakhólum fyrir tilstilli og eldmóð Önnu S. Snorradóttur.

Þess má svo geta að gifsstyttan kom einnig heim með bronsbróður sínum og týndist enn og aftur í önnur 20 ár! Gifs-Nonna hafði verið komið í góða geymslu hjá Norðurorku en er nú komin í varðveislu Listasafns Íslands með öðrum verkum Nínu.       

Nonnastytta    

 

Þær heimildir sem stuðst var við og fleiri þar sem hægt er að lesa sér frekar til um efnið:

Prentaðar heimildir

„Búið að steypa Nonna í brons.“ Morgunblaðið, 25. mars 1995, 6.

„Listaverk kom í leitirnar.“ Morgunblaðið, 31. desember 1992, 15.

„Styttan af Nonna afhjúpuð í dag.“ Dagur, 29. ágúst 1995, 4.

Anna S. Snorradóttir. „Hvar er styttan af Nonna?“ Morgunblaðið, 7. október 1922, 12–13.

Anna S. Snorradóttir. „Hvar er styttan af Nonna?“ Morgunblaðið, 10. júlí 1992, 10.

GJ. „Setja upp styttuna af Nonna.“ Dagblaðið Vísir – DV, 21. ágúst 1995, 16.

Jón Hjaltason. Nonni og Nonnahús. Akureyri: Hólar, 1993.