sundlaugin

Það hafa margir stungið sér til sunds hér í meira en 120 ár enda verið hér sundaðstaða með einum eða öðrum hætti. Það var ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að sundmaður kynni að synda sem er skrítið enda sóttu Íslendingar sjóinn af miklum krafti.

Sundsaga Íslands í gegnum aldirnar er að mörgu leyti saga hörmunga, þar sem flestir Íslendingar voru ósyndir langt fram á 19. öld. Sjóslys voru tíð fyrr á öldum og spiluðu þar inn í þættir á borð veðurfar, slæmur aðbúnaður á bátum og vankunnátta manna í sundi. Það var þess vegna sem Jónas Hallgrímsson skáld og Fjölnismaður ákvað árið 1836 að reyna að ráða bót á þessu með því að þýða sundreglur yfir á íslensku og gefa út. Faðir Jónasar hafði drukknað í Hraunsvatni þegar Jónas var á níunda aldursári sem skýrir enn frekar þá áherslu sem hann lagði á sundkunnáttu. Hugmyndin var í senn að kenna fólki að bjarga sér í vatni en einnig að efla áhuga fólks á íþróttagreininni, enda heilsubætandi. Í formála bókarinnar segir að árið 1821 hafi ekki mikið fleiri en 6 manns kunnað að synda á öllu landinu, en árið 1824 voru Íslendingar rúmlega 50.000 talsins.
Eftir því sem leið á 19. öldina varð sífellt meiri vitundavakning um mikilvægi þess að kunna að synda og voru Akureyringar ekki aftarlega á merinni í þeim efnum. Árið 1895 lagði Eggert Laxdal þáverandi bæjarfulltrúi til á bæjarstjórnarfundi að bærinn myndi verja um 20–30 krónum til sundkennslu eða koma upp sundpolli. Þetta átti að framkvæma með því að stífla lækinn sem rann niður Grófargil, en við það myndaðist pollur eða tjörn. Varð svo úr og má því segja að frá aldamótunum 1900 hefur verið sundaðstaða á þessum stað í einhverri mynd. Fyrstu áratugina voru hvorki steyptir veggir né botn og því var vatnið oft mjög skítugt og gruggugt. Þá var einungis notast við lækjarvatn og var vatnið iðulega fremur kalt, um 11–15 gráður þegar vel viðraði. Það urðu hins vegar stakkaskipti árið 1933 þegar heitt vatn var leitt í sundpollinn eftir leiðslum úr heitum laugum í Glerárgili. Þá var vatnið að öllu jöfnu 25–26 gráður. Nokkru áður eða árið 1920 var steyptur grunnur og árið 1936 var botn steyptur og var þá útlitið orðið mun líkara þeim sundlaugum sem við þekkjum í dag.
            Eftir tilkomu sundpollsins var farið að kenna sund á Akureyri. Ólafur Magnússon sundkennari kenndi greinina í meira en hálfa öld eða frá 1910–1964. Annar brautryðjandi í sundmálum var Lárus Rist, sem kenndi leikfimi og sund við Gagnfræðaskólann á Akureyri (síðar MA) á fyrstu áratugum 20. aldar. Árið 1907 synti hann yfir Eyjafjörð klæddur sjófötum og sjóstígvélum, en fór úr þeim jafnt og þétt á sundinu. Vildi Lárus með þessu vekja athygli á mikilvægi þess að kunna að synda, ekki síst fyrir sjómenn. Á næstu árum og áratugum varð mikil sundvakning í landinu og sundkennsla varð æ algengari.
            Framan af voru lítil timburhús og kofar í hlutverki búningsklefa en húsið sem er fyrir framan þig og á stendur skýrum stöfum „SUNDLAUG AKUREYRAR“ var vígt árið 1956. Síðan þá hafa orðið ýmsar breytingar og viðbætur á sundsvæðinu, en í dag eru þar meðal annars tvær stórar laugar, þrír pottar og vaðlaug. Síðasta breytingin átti sér stað fyrir nokkrum árum þegar þrjár nýjar rennibrautir voru byggðar við laugina.

 

Þær heimildir sem stuðst var við og fleiri þar sem hægt er að lesa sér frekar til um efnið:

Prentaðar heimildir

„Opnun nýju sundlaugarinnar markar tímamót í sundmálum bæjarins.“ Dagur, 11. júlí 1956, 1 og 7.

„Sæmdir gullmerki SSÍ fyrir vel unnin störf.“ Morgunblaðið, 26. júlí 1969, 22.

Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland, ritstj. Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon. Reykjavík: Hagstofa Íslands, 1997. Sjá bls. 56.

Ingimar Jónsson. „100 ára minning. Lárus Rist.“ Íslendingaþættir Tímans, 14. júlí 1979, 8.

Lárus J. Rist. Synda eða sökkva. Endurminningar. Akureyri: Sigurjón Rist, 1947.

Nachtegall, Fredericus. Sundreglur. Íslenzkað hefir Jónas Hallgrímsson. Kaupmannahöfn: P.N. Jörgensen, 1836.

Ólafur Magnússon. „Sundlaugin.“ Krónuveltan, 25. nóvember 1933, 3.

Vefheimildir

Arnór Bliki Hallmundsson. „Hús dagsins: Sundlaug Akureyrar.“ Akureyri.net. Sótt 5. júní 2023 https://www.akureyri.net/is/moya/news/hus-dagsins-sundlaug-akureyrar