Þjóðskáldið og þorparinn Örlygur

Í þessu húsi, Aðalstræti 50, bjó Matthías Jochumsson ásamt fjölskyldu sinni þegar þau fluttu til Akureyrar áður en þau fluttu á Sigurhæðir 1903. Þórunn Valdimarsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur lýsir komu þeirra svona í bók sinni Upp á Sigurhæðir:

„Lestin ríður þann 11. júlí 1887 frá Oddeyri áfram mjóa troðninginn undir brekkunni að gömlu Akureyri - húsaþyrpingu neðan við Búðargil. Kalt er þótt hásumar sé því norðanvindur næðir um allt nema gjörþæfð plögg.  Matthías og fjölskylda hafa engu að síður meðbyr innra sem ytra og taka stefnuna að Laxdalshúsi fremst á eyrinni. Þar undir öldnu reynitré ná skagfirskir hestar og fjórtán mannverur hvíld stutta stund.

Skömmu síðar gengur Eggert Laxdal kaupmaður með þeim suður Fjöru að sýna þeim húsið þeirra reisulegt og hvítmálað, sem Akureyringar munu nú fara að kalla prestshús í stað prentsmiðju. Í góðri trú bera þau hafurtask sem tengir hið gamla því nýja af hestum í hús. Vindurinn blés þeim hingað eins og hann væri að koma þeim heim ... hér á Matthías líka eftir að eldast vel, ná sátt og virðingu og hafa kjark til að halda fram sínum skoðunum.“

 Matthías var kynlegur kvistur og stutt í húmorinn. Sagt er að séra Matthías hafi hitt Jón Sveinsson, sem einnig bjó í Innbænum og var þá nýlega orðinn bæjarstjóri, á troðningnum hér fyrir framan húsið og óskað honum til hamingju með bæjarstjórastarfið. Jón á að hafa svarað því til að þetta væri nú varla nema þorp. Þá á séra Matthías að hafa svarað – „jæja, til hamingju þá herra yfirþorpari“.

 

Heimildir og frekari lesning:

Þórunnar Valdimarsdóttur. Upp á sigurhæðir. JPV, Reykjavík 2006.         

Örlygur Sigurðsson, Bolsíur frá bernskutíð. Geðbót, Reykjavík 1971.