14.08.2013
Sunnudaginn 18. ágúst verða „Töðugjöld“ í Laufási og hefst dagskráin í Laufáskirkju kl. 13.30 þar sem hlýða má á ýmsan fróðleik um hversu mikilvægur heyskapurinn var fyrir menn og skepnur. Söngglaðir sveitungar taka lagið undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur ásamt húskarlinum og einsöngvaranum Þorkeli Pálssyni frá Höfða í Grenivíkurhreppi. Í Gamla bænum verður handverksfólk að störfum og ljósmyndasýning um „þarfasta þjóninn“, sem var eins og viðurnefnið bendir til ómissandi starfskraftur við bústörfin. Það verður þó ekki aðeins hægt að skoða hestana af myndum heldur verða hestar á hlaðinu og börnum boðið á bak. Farið verður í allskonar skemmtilega gamaldags leiki með börnum á öllum aldri úti á hlaði. Þegar síðasta tuggan hefur verið tekin saman af túninu, verður ýmislegt góðgæti að smakka úr trogunum og borðin svigna undan meðlæti og uppáhellingu í Kaffi Laufási. Dagskráin stendur frá kl. 13:30 til 17 og eru allir hjartanlega velkomnir.
Lesa meira
29.07.2013
Safn í útrás? Í tilefni þess að 50 ár eru frá fyrstu sýningu Minjasafnsins á Akureyri heldur safnið í sýningarför um Eyjafjörð. Það er frekar óvenjulegt að söfn ferðist um en í tilefni þess að 50 ár eru frá fyrstu sýningu safnsins verða settar upp fjórar sýningar í sveitarfélögum sem safnið eiga. Í sýningunum er lögð áhersla á að sýna ljósmyndir og gripi frá viðkomandi sveitarfélagi fyrir sig, sem safnið hefur fengið til varðveislu undanfarin 50 ár. Gripi sem fólk tengir sínu nánast umhverfi og nágrönnum, ef ekki eigin fjölskyldu. Með þessu er undirstrikað aðsafnið er sprottið úr því samfélagi og varðveitir sögu þess um ókomin ár ekki síst fyrir ófæddar kynslóðir og eflir meðvitund um gildi eigin menningar jafnvel þótt hún sé sprottin úr eldhúsinu heima eða úr myndavél áhugamannsins í næsta húsi.Fyrsta sýningin opnar fimmtudaginn 1. ágúst kl. 20 í Leikhúsinu á Möðruvöllum í Hörgársveit. Auk ljósmynda og merkisgripa úr Hörgársveit verður sýnd kvikmynd úr fórum Sverris Haraldssonar úr Skriðu sem teknar eru á 8. og 9. áratug síðustu aldar.
Lesa meira
26.07.2013
Það var margt um manninn á MIðaldadögum á Gásum eða hátt í 2000 manns. Ferðalangar, innlendir sem erlendir, brugðu sér aftur til miðalda til að upplifa miðaldir. Brennisteinshreinsun, kolagerð, sverðabardagar, vefnaður, jurtalitun ásamt Guðmundi góða, bátum og margt fleira bar fyrir augu gesta. Það voru glaðir gestir og Gásverjar sem héldu heim eftir vel heppnaða Miðaldadaga þar sem veðurguðirnrir létu ekki sitt eftir liggja til að upplifunin á Gásum yrði sem allra best. Kærar þakkir fá styrktaraðilar okkar, gestir og Gásverjar.
Lesa meira
15.07.2013
Miðaldakaupstaðurinn á Gásum lifnar við á hinum árlegu MIÐALDADÖGUM sem standa frá föstudeginum 19. júlí til sunnudagsins 21. júlí kl 11-18. Sverðaglamur, örvaþytur, lokkandi matarilmur, háreysti kaupmanna, glaðir Gásverjar, brennisteinsfnykur og ljúfir miðaldatónar munu taka á móti forvitnum gestum þessa daga. Það eru Gáskaupstaður ses og Minjasafnið á Akureyri sem standa fyrir þessum árlega viðburði þar sem sögunni er miðlað til gesta með lifandi hætti í afar góðu samstarfi við miðaldahóp þjóðháttafélagsins Handraðans hér í Eyjafirði ásamt áhugafólki um miðaldir af öllu landinu.Hlökkum til að sjá þig
Lesa meira
15.07.2013
Gásakaupstaður ses og Minjasafnið á Akureyri bjóða uppá gönguferð með leiðsögn um tóftir miðaldakaupstaðarins á Gásum fimmtudagkvöldið 18. júlí kl 20. Gengið verður frá bílastæðinu. Gangan er létt og stendur í eina klukkustund. Ekkert þátttökugjald.Leiðsögumaður: Sigrún Birna Óladóttir Hjartanlega velkomin
Lesa meira
09.07.2013
Sunnudaginn 7. júlí var hinn íslenski safnadagur. Líf og fjör var í húsum Minjasafnsins en þennan dag komu 900 gestir á Minjasafnið, í skáldahúsin og gamla bæinn Laufás.Margar og ólíkar sýningar eru í boði og á degi sem þessum mættu allir finna eitthvað við sitt hæfi og sem dæmi má nefna sýningar um landnám Eyjafjarðar, Norðurljós, skáldið Nonna og upphaf Akureyrar. Auk afþreyingar af ýmsu tagi þar sem hægt er að teikna norðurljós, tjá þau í dansi eða njóta kaffiveitinga í sumarsól við Laufás. Þessi ungi drengur sem sjá má á myndinni brá á leik í Minjasafnsgarðinum - en á safninu er hægt að klæðast ýmsum búningum frá fjölbreyttum tímaskeiðum, auk þess að kynnast bú-leikjum barna fyrr á tímum í gegnum leik á grasflötinni við Nonnahús.Minjasafnið þakkar þeim fjölmörgu gestum sem lögðu leið sína á söfnin á safnadaginn kærlega fyrir komuna.
Lesa meira
05.08.2013
Markaðsdagur í Laufási verður mánudaginn 5. ágúst kl 14-16. Á markaðsdeginum kennir ýmissa grasa f´ra bændum og handverksfólki úr sveitinni. Komdu, njóttu og gerðu góð kaup.
Lesa meira
07.07.2013
Minjasafnið á Akureyri býður uppá leiðsögn kl 14 og 15 þennan dag um sumarsýningu safnsins Norðurljós- næturbirta norðursins. Sýningin samanstendur af málverkum og ljósmyndum. Málverkin eru eftir danska málarann Harald Moltke. Hann var í hópi vísindamanna frá dönsku veðurstofunni sem kom gagngert til Akureyrar 1899 til að rannsaka norðurljósin. Ljósmyndirnar tók áhugaljósmyndarinn Gísli Kristinsson frá Ólafsfirði á síðasta ári. Í Gamla bænum Laufási verður boðið uppá leiðsögn um bæinn kl 14. Áhugasamir gestir geta smakkað grasate og starfsfólk Pólarhesta munu teyma undir yngstu gestunum milli kl 14 og 16. Skáldahúsin þrjú á Akureyri Nonnahús. sem tileinkað er barnabókarithöfundinum Jóni Sveinssyni - Nonna, Sigurhæðir, hús þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar og Davíðshús, hús hins ástsæla skálds og rithöfundar Davíðs Stefánssonar, verða opin þennan dag. Benda má á að opnunartími í Davíðshúsi og Sigurhæðum er frá kl 13-17, í Laufási 9-17 og Minjasafninu og Nonnahúsi kl 10-17. Frítt er á þessi söfn í tilefni dagsins.
Lesa meira
28.06.2013
Í júlímánuði verður daglega kl 14 boðið uppá leiðsögn um Gamla bæinn Laufás. Það er von safnsins að ferðalangar, innlendir sem erlendir, nýti sér þessa forvitnilegu viðbót í heimsókn þeirra í Laufási.
Lesa meira