28.06.2013
Sumarsýning Minjasafnsins hefur vakið mikla lukku hjá erlendum sem innlendum gestum. Erlendu gestir okkar falla í stafi og hafa mikinn áhuga á því að vita hvenær besti tíminn til að sjá norðuljós sé. Kannski þeir komi aftur í heimsókn yfir vetrartímann. Sýningin samanstendur af ljósmyndum Gísla Kristinssonar, áhugaljósmyndara frá Ólafsfirði, og málverkum danska listmálarans Haralds Moltke. Hann var einn af leiðangursmönnum sem komu til Akureyrar 1899 til að rannsaka norðurljósin. Komdu í heimsókn. Sjón er sögu ríkari.
Lesa meira
25.06.2013
Hér má sjá hjarta og drykkjarkrús eftir leirlistakonuna Margréti Jónsdóttur frá Akureyri. Í hjartanu og framan á krúsinni má sjá lógó safnsins sem er hluti af útskornu mynstri á kirkjuskáp frá Hrafnagilskirkju (1672). Skápurinn prýðir sýninguna Eyjafjörður frá öndverðu. Hjartaðog krúsin eru m.a. það sem til er í forvitnilegri safnbúðinni.
Lesa meira
25.06.2013
Hópur barna úr sumarlestranámskeiði Minjasafnsins og Amtsbókasafnsins lesa nú í hverju horni á safninu. Börnin fá svo á eftir forvitnilega leiðsögn um safnið þar sem þau kynnast bænum sem þau búa í á annan hátt en þau eiga að venjast. Auk þess læra þau um landnámið í firðinum, verslun, híbýli, trúarlíf, leik og störf landnámsfólksins áður en þau fara út í blíðuna.
Lesa meira
24.06.2013
Það voru hátt í 200 manns sem kom í Jónsmessuvökuna í Laufási í gær. Bekkurinn í kirkjunni var þétt setinn á erindi Bjarna Guðleifssonar þar sem hann lýsti þjóðareinkennum Íslendinga eins og honum einum er lagið. Ómfagur söngur og undirleikur þeirra Birgis Björnssonar, Heimis Ingimarssonar og Jónínu Bjartar Gunnarsdóttur ómaði um allt. Forvitnilegur fróðleikur um fráfæur, jurtir og jónsmessu vakti athylgi gesta og fóru þeir margs vísari heim. Grasaystingur var gerður á hlóðum út á flöt og gestir gæddu sér á honum, skyri og nýgerðu smjöri. Félagar úr Þjóðháttafélaginu Handraðanum bróderaði og sýndi handverk inní Gamla bænum. það var því sannarlega líf og fjör í Laufási þetta fallega og kyngimagnaða sumarkvöld.
Lesa meira
21.06.2013
Ljósmyndasafn Leikfélags Akureyrar, sem barst Minjasafninu í maí síðastliðnum, hefur nú verið komið fyrir í nýjum umbúðum hér á safninu.Ljósmyndasafn LA inniheldur rúmlega 7500 ljósmyndir teknar frá aldamótum 1900 fram yfir 2000.Búið er að skipta um umbúðir á öllum myndunum, þær komnar með númer, í möppur og um 1/3 hefur þegar verið skannaðar og er því til í tölvutæku formi. Ljósmyndasafnið er einstök heimild um um þau leikrit sem tekin hafa verið fyrir hjá LA, leikara sem tekið hafa þátt, áhugafólk, búninga og uppfærslur. Hörður Geirsson, sérfræðingur ljósmyndadeildar MInjasafnsins, segir að skönnun safnsins verði lokið í vetur. Meðfylgjandi mynd sýnir þá Gest Einar Jónasson, Þráinn Karlsson og Viðar Eggertsson í hlutverkum Kaspers, Jespers og Jónatans í uppfærslu LA á Kardimommubænum leikárið 1972-3.
Lesa meira
20.06.2013
Í tilefni Jónsmessu verður heilmikið um að vera í Gamla bænum Laufási í Eyjafirði sunnudaginn 23. júní kl 20:00 – 22:00. Þó gestir í Laufási velti sér ekki allsberir uppúr magnaðri næturdögginni þá er betra en ekkert að ganga í henni berfættur þegar líða fer á kvöldið. Dagskráin hefst í kirkjunni í Laufási kl 20:00 þar sem Bjarni Guðleifsson, rithöfundur, náttúrufræðingur og prófessor verður með erindi um þjóðareinkenni Íslendinga. Tónlistin mun síðan óma um alla sveit þegar tónlistarfólkið Birgir Björnsson, Snorri Snorrason og Jónína Björt Gunnarsdóttir taka lagið. Dansfélagið Vefarinn stígur dans á hlaðinu í klæðnaði sem hæfir Jónsmessunni og í Gamla bænum verður forvitnilegur fróðleikur um fráfærur og grasaferðir. Gerður verður grasaystingur og áhugasamir gestir geta séð hvernig smjör og skyrgerð fór fram áður fyrr þegar sjálfsþurftarbúskapurinn var og hét. Langar þig að smakka ? Þjóðháttafélagið Handraðinn sýnir handbragðið og deilir með gestum upplýsingum um það sem fram fer. Auk þess verður handverk í hávegum haft í Gamla bænum. Tilvalið er fyrir daggarvota og berfætta gesti að ylja sér á kaffi og með því í Kaffi Laufási þetta kvöld. Aðgangseyrir 900 kr.
Lesa meira
18.06.2013
Í tilefni kvenréttindadagsins miðvikudaginn 19. júní kl 16:30 verður kvennasöguganga um Oddeyrina í fyrsta sinn. Saga kvenna á eyrinni er mörgum hulin og því gefst hér kjörið tækifæri til að fá innsýn í líf og störf þeirra en konur á eyrinni sáu t.d. um ýmiskonar rekstur um aldarmótin 1900 og fram á miðja 20. öld. Örn Ingi Gíslason mun leiða gönguna og varpa ljósi á líf kvenna og ýmsar uppákomur, hefðir og venjur sem ríktu á eyrinni. Í ár eru 150 ár frá því að Vilhelmína Lever greiddi atkvæði í fyrstu bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri árið 1863, en konur öðluðust ekki kosningarétt til sveitarstjórna fyrr en 20 árum síðar. Vilhelmína bjó á nokkrum stöðum á Akureyri m.a. á eyrinni en hún var mikil framkvæmdakona rak t.d. vertshús og var brautryðjandi í tómstundamálum bæjarbúa þegar hún setti upp “strýtuflöt” við veitingahúsið sitt í fjörunni. Saga Jónsdóttir leikkona mun segja okkur frá Vilhelmínu í tilefni af kosningaafmæli hennar. Kvennasögugangan hefst við Ráðhústorg kl. 16:30 og lýkur við Gamla Lund. Ekkert þátttökugjald er í gönguna. Gangan er samstarfsverkefni Jafnréttisstofu, Héraðsskjalasafnsins á Akureyri, Minjasafnsins á Akureyri, Zontakvenna og Akureyrarbæjar.
Lesa meira
12.06.2013
Hvað uppgötvuðu danskir leiðangursmenn sem komu til Akureyrar til að rannsaka norðurljós árið 1899-1900? Veistu þú hver Harald Moltke og hvert hlutverk hans var í leiðangrinum? Svör við þessum spurningum og mörgum fleirum færð þú á Minjasafninu á Akureyri fimmtudagskvöldið 13. júní kl 20. Þá verður boðið uppá leiðsögn um sumarsýningu Minjasafnsins á Akureyri Norðurljós - næturbirta norðursins og gönguferð uppá Höfða. Þar reistu leiðangursmenn sér rannsóknarstöð sem einnig var vinnustofa málarans Haralds Moltke. Leiðsögumenn eru þeir Hörður Geirsson sérfræðingur ljósmyndadeildar Minjasafnsins og Haraldur Þór Egilsson safnstjóri. Leiðsögnin hefst á Minjasafninu og aðgangseyrir er kr 900.Minnum á að hægt er að kaupa árskort á safninu á kr 3000. Tilvalið fyrir áhugasama safngesti!
Lesa meira