Vel mætt á GANGNAVÖKU í Kaffi Laufási

Það var húsfyllir á „Gangnavöku“ í Kaffi Laufási á laugardagskvöldið þar sem hátt í 100 manns mættu. Frábært sveitastemning ríkti í kaffihúsinu þar sem hlustað var á fjárglæfrasögur, söng, kveðskap og fróðleik um göngur og réttir. Þakkir fá allir þeir sem gerðu þetta skemmtilega kvöld að veruleika.
Lesa meira

Unnið í veðurblíðu í Laufási

Síðasta laugardag lifnaði Gamli bærinn í Laufási við með hjálp félaga úr Þjóðháttafélaginu Handraðinn. Tekið var slátur, unnið með ull, prjónað, saumaðir skinnskór og sviðnir kindahausar svo eitthvað sé nefnt. Félagar úr Handraðnum sðyndu gestum og gangandi réttu handtökin í einstakri veðurblíðu. Við þökkum kærlega þeim gestum sem komu en ekki síst Þjóðháttafélaginu Handraðanum - án ykkar væri þetta ekki hægt!
Lesa meira

Japanski sendiherrann á Íslandi heimsótti Nonnahús

Japanski sendiherrann Mr. Masayuki Takashima heimsótti Nonnahús í dag ásamt aðstoðarkonu sinni. Hann var mjög hrifinn enda lesið bækur Nonna og þekkir vel þýðanda Nonnabókanna í endursögn Brynhildar Pétursdóttur sem gefin var út í Japan nýlega. Safnstjórinn, Haraldur Þór Egilsson, fór með honum um safnið og sýnir honum hér þær japönsku Nonnabækur sem til eru í safninu.
Lesa meira

Dömulegir dekurdagar á Minjasafninu

safnbúð MInjasafnsins tekur á sig bleikan blæ í tilefni af dömulegum dekurdögum 11.-14. október.  Af þessu tilefni verða freistandi tilboð á vörum tilvöldum í tækifærisgjafir auk afsláttar af fallegum skartgripum fyrir dömur og þá sem þeim unna: 20% afsláttur  á AURUM skartgriplínunum Ísold og Sölku  og 20% afsláttur af skarti eftir eyfirska gullsmiðinn Andra Geir.Allir í bleiku fá 2 fyrir 1 af aðgangseyri á sýningar safnsins þessa daga.Safnið er opið samkvæmt vetraropnun fimmtudaga til sunnudaga kl 14-16.
Lesa meira

Gangnavaka í Laufási 13. október kl 20:30

Gangnavaka verður í Kaffi Laufási laugardagskvöldið 13. október kl 20:30. Veist þú hvað göngur og réttir eru? Þekkir þú orðatiltækin og réttu orðin sem tengd eru göngum og réttum? Ef ekki þá er tækifærið núna til að bæta í viskubrunninn. Komdu og þú verður margs vísari. Svipmyndir verða sýndar úr göngum og réttum, fjárglæfrasögur verða sagðar og söngur gangnamanna ásamt gagnamannadrápu mun óma um sveitir. Skemmtilegar teikningar af bæjunum sem eitt sinn prýddu Fjörðurnar og Látraströndina mynda umgjörðina um þann fríða flokk manna sem stíga á stokk þetta kvöld og áheyrendur þeirra. Gangnamannakaffi og fjöldasöngur setja svo punktinn yfir i-ið. Allir hjartanlega velkomnir - enginn aðgangseyrir
Lesa meira

Haustannir - starfsdagur að hausti í Laufási

Starfsdagur að hausti í Gamla bænum Laufási verður á laugardaginn 13. október kl 13:30 - 16. Þá  verða félagsmenn þjóðháttafélagsins Handraðans  að störfum í bænum og vinna venjubundin hauststörf að gömlum og góðum sið. Þarna er verið að viðhalda þekkingu sem óðum er að hverfa. Það er því um að gera að nýta tækifæri og fá sér bíltúr út í sveit og upplifa hauststemninguna eins og var í gamla sveitasamfélaginu.Tilvalið fyrir feður, afa, bræður og frændur að skella sér í Laufás á meðan dekrað er við dömurnar á Akureyri. Aðgangseyrir 500 kr
Lesa meira

Kíktu á sýningar safnsins í fallega veðrinu!

Minjasafnið er opið í dag, föstudag, og um helgina frá kl 14-16. Tilvalið þegar gengið er um Innbæinn í góða veðrinu að kíkja inná sýningar safnsins: ljósmyndasýninguna Manstu ...Akureyri í 150ár og grunnsýningarnar Akureyri - bærinn við pollinn og Eyjafjörður frá öndverðu.Hlökkum til að sjá þig!
Lesa meira

Fimmtudagsfyrirlestur á Möðruvöllum - Gamlar myndir frá Minjasafninu

Hörður Geirsson, sérfræðingur ljósmyndadeildar Minjasafnins á Akureyri, mun sýna gamlar myndir úr myndasafni safnsins og segja frá þeim. Hann mun meðal annars segja frá myndum  ljósmyndarans Jóns Júlíusar Árnasonar. En hann bjó á Laugarlandi.  Fyrirlesturinn er fimmtudagskvöldið 4. október kl 20:30 í Leikhúsinu á Möðruvöllum. Allir hjartanlega velkomnir.Hægt er að fá sér kaffisopa í lokin og ræða við Hörð áður en haldið verður heim á leið.
Lesa meira

Vetraropnunartími safnsins eykst!

Ákveðið hefur verið að auka opnunartíma Minjasafnsins yfir vetrartímann. Frá og með 16. september fram til 31. maí verður opið á fimmtu-, föstu-, laugar-og sunnudögum kl 14-16. Þetta er gert til að koma til móts við síaukinn straum ferðamanna á lágönn til Akureyrar og til að gera enn fleirum gestum, innlendum sem erlendum,  fært að koma og sjá sýningar safnsins á 50 ára afmæli þess og 150 ára afmæli Akureyrarbæjar.Þess má geta að fram til 15. september er safnið opið daglega kl 10-17!
Lesa meira

Manstu... Akureyri í myndum

Mikil aðsókn er í afmælissýningu safnsins Manstu ... Akureyri í myndum. Mikið er spjallað og rýnt í myndir og rifjaðar upp margar góðar minningar um hvernig var umhorfs á Akureyri.  Safnið er opið alla daga frá kl 10-17 fram til 15. september það er því um að gera að nýta tækifærið og kíkja í heimsókn.
Lesa meira