Lesa meira

Fyrsti vetrardagur vel sóttur

það voru um 200 manns sem fögnuðu komu vetrarins síðasta laugardag, fyrsta vetrardag. Fjölmargir tóku þátt í ratleiknum og leituðu að þórslíkneskinu um allt safn. Dregnir hafa verið út 3 fundvísir gestir. Það eru þau Sólmundur, Sóley María og Hekla Dís. Haft verður samband við vinningshafana  og í framhaldinu mega þau sækja vinningana á safnið. Mikla athygli vakti örsýning STOÐVINA á símtækjum. Þar mátti sjá símtæki af öllum gerðum í ýmsum litum. Stúlknakór Akureyrarkirkju söng veturinn inn og vel hefur tekist til því nú kyngir jú snjónum niður.  Vetrinum var því fagnað hér á safninu með pompi og prakt. 
Lesa meira

Gásverjar að störfum á miðaldalegu Minjasafni

Næstkomandi laugardag þann 3. nóvember kl 14-16 verður miðaldalegur blær yfir sýningunni Eyjafjörður frá öndverðu. Miðaldahópur Handraðans, Gásverjar sem taka þátt í Miðaldadögum á Gásum árlega, mun dytta að ýmsu smálegu sem viðkemur fatnaði og skóm. Ungur Gásverji mun vinna að hringabrynjunni sinni svo hún verði klár ef kemur til bardaga á Gásum þegar snjóa leysir. Vilt þú kynnast handverki frá miðöldum? Miðaldakaupstaðnum Gásum sem er hér í túnfætinum? Viltu kannski gerast Gásverji? Komdu og kíktu á okkur á laugardaginn. Við hlökkum til að sjá þig!
Lesa meira

Vetri fagnað fyrsta vetrardag

Fyrsta degi vetrar verður fagnað á Minjasafninu á Akureyri laugardaginn 27. október kl 14-16. Stúlknakór Akureyrarkirkju syngur veturinn inn og börnin gæða sér á gamaldags nammi úr kramarhúsi. Börn á öllum aldri fá tækifæri til að kynnast víkingum í Eyjafirði þegar farið verður um landnámshluta sýningarinnar EYJAFJÖRÐUR FRÁ ÖNDVERÐU með leiðsögn. Þar sem kosningar eru nýafstaðnar og fólk í æfingu verður hægt að kjósa um hvaða mynd á sýningunni MANSTU – Akureyri í myndum er fyndnust, fallegust og hver þeirra er þitt uppáhald. Ertu búin/n að sjá sýninguna? Ef ekki þá gefst núna skemmtilegt tækifæri til að gera það með öðrum hætti en venjulega og þeir sem þegar hafa komið geta kíkt við aftur og haft áhrif með því að kjósa líka! Þær myndir sem verða stigahæstar verða merktar sérstaklega og kynntar á heimasíðu safnsins. Í tilefni dagsins verður spennandi leiðsögn um króka og kima safnsins , sem venjulegast er ekki farið um. þar gefst áhugasömum gestum að kynnast arkitektúr hússins, fyrrverandi íbúum og lífi þeirra í húsinu. Örsýning um þróun símtækja á vegum Stoðvina Minjasafnsins mun án efa vekja kátínu meðal yngstu kynslóðarinnar. Vekja upp skemmtileg samtöl milli kynslóða um síma í öllum hans myndum og jafnvel rifjaðir upp þeir tímar sem símar, leikir í símum , internet og farsímar voru ekki til. Hvað gerðu menn þá?? Dagskráin er í boði vinafélags Minjasafnsins, Stoðvina, með dyggri aðstoð starfsfólksins.Enginn aðgangseyrir í tilefni dagsins.
Lesa meira

Vel mætt á GANGNAVÖKU í Kaffi Laufási

Það var húsfyllir á „Gangnavöku“ í Kaffi Laufási á laugardagskvöldið þar sem hátt í 100 manns mættu. Frábært sveitastemning ríkti í kaffihúsinu þar sem hlustað var á fjárglæfrasögur, söng, kveðskap og fróðleik um göngur og réttir. Þakkir fá allir þeir sem gerðu þetta skemmtilega kvöld að veruleika.
Lesa meira

Unnið í veðurblíðu í Laufási

Síðasta laugardag lifnaði Gamli bærinn í Laufási við með hjálp félaga úr Þjóðháttafélaginu Handraðinn. Tekið var slátur, unnið með ull, prjónað, saumaðir skinnskór og sviðnir kindahausar svo eitthvað sé nefnt. Félagar úr Handraðnum sðyndu gestum og gangandi réttu handtökin í einstakri veðurblíðu. Við þökkum kærlega þeim gestum sem komu en ekki síst Þjóðháttafélaginu Handraðanum - án ykkar væri þetta ekki hægt!
Lesa meira

Japanski sendiherrann á Íslandi heimsótti Nonnahús

Japanski sendiherrann Mr. Masayuki Takashima heimsótti Nonnahús í dag ásamt aðstoðarkonu sinni. Hann var mjög hrifinn enda lesið bækur Nonna og þekkir vel þýðanda Nonnabókanna í endursögn Brynhildar Pétursdóttur sem gefin var út í Japan nýlega. Safnstjórinn, Haraldur Þór Egilsson, fór með honum um safnið og sýnir honum hér þær japönsku Nonnabækur sem til eru í safninu.
Lesa meira

Dömulegir dekurdagar á Minjasafninu

safnbúð MInjasafnsins tekur á sig bleikan blæ í tilefni af dömulegum dekurdögum 11.-14. október.  Af þessu tilefni verða freistandi tilboð á vörum tilvöldum í tækifærisgjafir auk afsláttar af fallegum skartgripum fyrir dömur og þá sem þeim unna: 20% afsláttur  á AURUM skartgriplínunum Ísold og Sölku  og 20% afsláttur af skarti eftir eyfirska gullsmiðinn Andra Geir.Allir í bleiku fá 2 fyrir 1 af aðgangseyri á sýningar safnsins þessa daga.Safnið er opið samkvæmt vetraropnun fimmtudaga til sunnudaga kl 14-16.
Lesa meira

Gangnavaka í Laufási 13. október kl 20:30

Gangnavaka verður í Kaffi Laufási laugardagskvöldið 13. október kl 20:30. Veist þú hvað göngur og réttir eru? Þekkir þú orðatiltækin og réttu orðin sem tengd eru göngum og réttum? Ef ekki þá er tækifærið núna til að bæta í viskubrunninn. Komdu og þú verður margs vísari. Svipmyndir verða sýndar úr göngum og réttum, fjárglæfrasögur verða sagðar og söngur gangnamanna ásamt gagnamannadrápu mun óma um sveitir. Skemmtilegar teikningar af bæjunum sem eitt sinn prýddu Fjörðurnar og Látraströndina mynda umgjörðina um þann fríða flokk manna sem stíga á stokk þetta kvöld og áheyrendur þeirra. Gangnamannakaffi og fjöldasöngur setja svo punktinn yfir i-ið. Allir hjartanlega velkomnir - enginn aðgangseyrir
Lesa meira

Haustannir - starfsdagur að hausti í Laufási

Starfsdagur að hausti í Gamla bænum Laufási verður á laugardaginn 13. október kl 13:30 - 16. Þá  verða félagsmenn þjóðháttafélagsins Handraðans  að störfum í bænum og vinna venjubundin hauststörf að gömlum og góðum sið. Þarna er verið að viðhalda þekkingu sem óðum er að hverfa. Það er því um að gera að nýta tækifæri og fá sér bíltúr út í sveit og upplifa hauststemninguna eins og var í gamla sveitasamfélaginu.Tilvalið fyrir feður, afa, bræður og frændur að skella sér í Laufás á meðan dekrað er við dömurnar á Akureyri. Aðgangseyrir 500 kr
Lesa meira